Færsluflokkur: Dægurmál

Náhirðin hatar fyrirtækin

Gömlu kommagrýlunni í stjórnarráðinu hefur löngum verið uppsigað við dugnaðarfólk og alla sem vilja bjarga sér af sjálfsdáðum og án ölmusu úr hennar lófa. Einkum er henni í nöp við það dugnaðarfólk sem stofnar fyrirtæki, veitir öðrum vinnu og gerir Íslandi kleift að halda uppi í rándýru menntakerfi og heilbrigðiskerfi.

Þess er best að minnast stöku sinnum að fyrirtækin í landinu eru fjöregg þjóðarinnar. Við einfaldlega stöndum og föllum með þeim hetjum sem þar leggja dag við nótt til þess að láta endana mætast. 

En náhirð Jóhönnu Sigurðardóttur getur ekki leynt því að gamla kommaeðlið hverfur ekki á einni nóttu. Náhirðin hatar hið frjálsa framtak og ríkisstjórn sem er í eðli sínu fjandsamleg atvinnulífinu verður aldrei farsæl ríkisstjórn.

 


mbl.is Stjórnendur fyrirtækja andvígir ríkisstjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamingjudagur blaðamennskunnar

Þetta er hárrétt ákvörðun hjá Þóru - fyrsta rétta ákvörðun hennar í langan tíma. Ég fylgdist oft með fréttum hennar hér áður fyrr og blöskraði hve lélegur fréttamaður hún var, ónákvæm, hlutdræg, ófyrirleitin og oftsinnis skorti hana greinilega skilning á því sem hún fjallaði um.

Blaðamennska er skemmtilegur starfsvettvangur fyrir gáfað, glaðsinna fólk sem hefur yndi af því að koma víða við og setja sig inn í  fjölbreytilega málaflokka. Blaðamenn og allir sem á fjölmiðlun starfa hafa í rauninni geysileg völd, því þeim er í lófa lagið að stýra umræðu samfélagsins og setja á hana litblæ sinn.

Þess vegna er lífsnauðsyn að í þetta starf veljist gott fólk og heiðarlegt. Íslendingar vilja hreinsa til í pólitíkinni en það er jafn brýnt að hreinsa til í blaðamennskunni. Óheiðarlegt fólk sem tottað hefur Bónus-spenann og glatað þannig starfsærunni verður að fara og finna sér annan vettvang.

Ég óska íslenskum blaðamönnum til hamingju með daginn. 


mbl.is Þóra Kristín hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ærulausir blaðamenn eiga að fara

Stór hluti blaðamannastéttarinnar er ekkert annað en ærulausir leigupennar. Það sem gildir um stjórnmálamenn á einnig að gilda um blaðamenn. Stjórnmálamenn sem gerðust þý braskaranna verða að víkja af þingi - sú krafa hefur verið sett fram skýrt og skilmerkilega og henni verða allir að hlíta.

Og fjölmiðlamenn sem um árabil hafa stundað þá iðju að skeina Jóni Ásgeiri og öllu því forherta braskarastóði eiga einnig að víkja og finna sér annan starfa. Þessir fjölmiðlamenn lugu og blekktu þjóðina kerfisbundið, af eindregnum brotavilja, hvar sem þeir komu því við - á Stöð 2, Fréttablaðinu, DV og tímaritageri Jóns Ásgeirs.

Allir sem einn verða þessir menn að hverfa af íslenskum fjölmiðlum. Fyrr er ekki hægt að tala um hreingerningu í samfélaginu. 


mbl.is Fjórir skrifuðu undir reikningana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískur rétttrúnaður

Svona virkar hinn pólitíski rétttrúnaður. Bráðum rennur sá dapurlegi dagur að manni leyfist ekki einu sinni að halla orði á KR-inga. Þetta er einfaldlega alltof langt gengið. Mannkynið þarf einhvern veginn að vinda ofan af þessari flækju.

Hitt finnst mér þó merkilegra sem fram kemur í fréttinni, að Verkamannaflokkurinn ætlar að banna manninum að bjóða sig fram í nafni hans. Hvað sem mönnum kann að finnast um pólitískan rétttrúnað, er þetta mikilvægt atriði og þetta þyrftu íslenskir stjórnmálaflokkar að taka upp hið snarasta.

Fram til þessa hafa prófkjörsmaskínurnar ráðið öllu um framboðslista flokkanna. Það er ill ráðstöfun og er án efa stærsta orsök þeirrar úrkynjunar sem orðið hefur á Alþingi. Flokkarnir verða að skapa sér reglur og skilmála, vísa á dyr einstaklingum sem smána flokkinn og stefnu hans, og laða til sín á listana betri frambjóðendur.


mbl.is Kynlífsgort kom frambjóðanda í koll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stormviðvörun - Þór er kominn aftur

Viðvörun til allra sem meta einhvers heiðarleg skoðanaskipti, vitsmunalegar samræður og hlýleg samskipti manna á millum: Þór Jóhannesson er snúinn aftur á moggabloggið!

Eins og menn muna er Þór Jóhannesson allra sóðalegasti slorpenni bloggsögunnar og sést ekki fyrir í glórulausum atlögum gegn öllu sem lífsanda dregur.

Þór er eldrauður kommúnisti, styður Vinstri græna og því afkáralegri sem þeirra ráðgerð er, því tryllingslegri verður stuðnings Þórs Jóhannessonar.

Ég hvet alla netverja til þess að lesa blogg-pistla Þórs því þar ber fyrir augu vinstri mennskuna eins og hún kemur af skepnunni, þrútin af afbrýðissemi, hatri, ofstæki og ofsóknarbrjálæði.

Lesið: http://thj41.blog.is/blog/thj41/

 

 


Vinstri menn ræsa rógsvélina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gengur rösklega fram í því nytsemdarverki að gera Framsókn að betra flokki. En það er sama hvað þessi piltur leggur sig fram, vinstri menn hella yfir hann svo ferlegum  óhróðri á netinu, facebook og blogginu, að raun er að lesa.

Sigmundur vann um skeið á sjónvarpinu og var þá bæði vandvirkur og glöggur fréttamaður. Hann fór til framhaldsnáms í Bretlandi og þegar hann birtist aftur höfðu margir á orði hve ferskar væru hugmyndir þessa efnismanns, og ég hjó eftir því að hann varð fyrstur Íslendinga til þess að skilja og skýra þær samningabrellur sem Bretar beita fyrir sig í samskiptum við grandalausa smáþjóð eins og okkur. 

Aldrei mun ég kjósa Framsóknarflokkinn en mér hreinlega hrýs hugur við þeirri neikvæðni og rógi sem nú mætir Sigmundi Davíð. Það er eins og einhver sjálfvirk rógsvél fari í gang í hjörtum íslenskra vinstri manna hvenær sem þeir sjá heiðarlegum, vel gerðum ungum manni bregða fyrir á stjórnmálasviðinu. 

Gangur rógsvélarinnar er síðan sá að hver einasti maður sem tekur upp hanskann fyrir hinn rægða mann, er sjálfur borinn rógi og honum úthúðað eftir kúnstarinnar reglum. Ég hvet alla góða Íslendinga til þess að hunsa rógsvél vinstri manna og styðja gott, ungt fólk sem vill taka þátt í pólitík og skapa landinu okkar nýja framtíð.


Náttúran eldfljót að jafna sig

Ég skrapp austur í Skóga í gær til þess að skoða eyðilegginguna - en hvergi var þó eyðileggingu að sjá. Vafalaust hefur mökkurinn verið svartur þegar hann hvolfdist yfir Þorvaldseyri en náttúran er eldfljót að jafna sig. Þarna var nálega tilsýndar eins og á venjulegum vordegi. Íslensku vindarnir búnir að feykja burt öskunni og þegar snjóaði lítilsháttar um daginn var rótin fljót að soga til sín þessa óvæntu næringu.

Fáeinir vindasamir dagar til viðbótar og síðan hressandi rigning, og þá verður allt komið í fyrra horf. Það hefur örlað á móðursýki ansi víða þessa dagana og menn hafa talað eins og þarna verði ekki hægt að reka búskap næstu árin, en þótt náttúran láti stundum illa er hún líka fljót að laga til eftir sig. Eftir fáeinar vikur mun enginn sjá að þarna hafi gengið eitthvað á.


mbl.is Eldgosið áfram á sama róli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

David skyggir á Davíð

Ég bar þetta undir fjármálaspekinginn sem er hér í heimsókn hjá mér núna með dætur sínar tvær, afadætur mínar, og kann kunni góð skil á þessu peningavafstri Davids Bowie. Það er alls ekki út í bláinn að skilgreina David Bowie sem hinn raunverulega byrjunarreit heimskreppunnar. Svolítið broslegt - en raunhæft samt.

Vinstri mönnum á Íslandi mun þó ekki þykja við hæfi að ótíndur, breskur rokkari skyggi á stjórnmálajöfurinn Davíð Oddsson.


mbl.is David Bowie kennt um kreppuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Láfi skreppur og kynnir sér

Gott er nú til þess að hugsa að Ólafur Ragnar skuli hafa skroppið í Samhæfingarmiðstöðina í Skógarhlíð og kynnt sér starfssemi hennar. Hann ætlar að hafa vaðið fyrir neðan sig næst þegar hann fræðir Breta um eldgos og aðrar hamfarir náttúrunnar. Menn hafa verið eitthvað að ergja sig yfir fyrirlestrum hans erlendis en ég skil hann alveg. Hann sagði ekki annað en það sem satt er. Það sem nú hefur gerst eru smámunir hjá því sem gæti gerst hér á Íslandi hvenær sem er.

Einhverjir hópar útlendinga hafa afpantað ferðir til landsins og við því er svo sem ekkert að gera. Ég er viss um að miklu fleiri munu koma hingað vegna þess að óstýrilát náttúran vekur áhuga þeirra. Vesturlandamenn hírast í þröngum borgum og líta þar varla glaðan dag. Þeim leikur hugur að ferðast til lands þar sem víðáttan býður þeim faðminn og ógnaröfl náttúrunnar yfirskyggja allt sem mannkynið kann að bjástra.

Til lengri tíma litið munum við græða á gasprinu í Láfa. 


mbl.is Gassprengingar í gígnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvenju lymskuleg blekking

Þessi harmagrátur Jóns Ásgeirs er óvenju lymskuleg blekkingartilraun. Greinin er augsýnilega samin af atvinnumanni í blekkingarfaginu, ímyndarfræðingi, og reynt er að troða inn í lesmálið eins miklu yfirborðssnakki með faglegum blæ og frekast er unnt.  Raunverulega iðrun er þar hvergi að líta og ég trúi því ekki að nokkur lifandi maður sé svo ámátlega vitlaus að gína við þessu.

Jón Ásgeir og þeir Bónusfeðgar eru að mörgu leyti sér á báti í hópi þeirra braskara sem kollkeyrðu efnahagslífið. Þeir komu sér upp gríðarlegu fjármálaveldi en létu ekki þar við sitja - þeir byggðu jafnframt feikna öflugt fjölmiðlaveldi sem réðst af algeru miskunnarleysi á alla þá, sem þeim feðgum var í nöp við og fýsti að klekkja á. En allt þetta var þeim ekki nóg. Þeir náðu tangarhaldi á heilum stjórnmálaflokki, Samfylkingunni, og beittu honum blygðunarlaust fyrir sig þegar Baugsveldið þurfti á að halda.

Allt var þetta ógnarveldi Jóns Ásgeirs og karls föður hans reist að bandarískri fyrirmynd.  Þeir réðu til sín tugi og hundruð þýlyndra þrælmenna sem gengu erinda þeirra og gera það reyndar enn -lögfræðingar, blaðamenn, stjórnmálamenn, viðskiptafræðingar - allt þetta fólk mun lifa ævi sína á enda í skugga þeirrar staðreyndar að þeir gengu glæpnum á hönd, þjónuðu illum hagsmunum og veittust að réttlæti, lögum, heiðarleika og manngæsku.


mbl.is Missti iðulega sjónar á góðum gildum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Baldur Hermannsson

Höfundur

Baldur Hermannsson
Baldur Hermannsson

Meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér. (Ibsen, lauslega snarað)

 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband