Færsluflokkur: Dægurmál

Steingrímur á heima í dýflissunni með Hreiðari

Þarna er tvímælalaust versta frétt dagsins komin. Eins og ekki sé nóg að Hreiðar Már og kumpánar hans hafi lagt í rústir traust á íslenskum fjármálafyrirtækjum - nú þarf Steingrímur Sigfússon að bæta um betur með því að gereyðileggja traust umheimsins á íslenska ríkinu.

Það er raunalegt að lesa um framferði íslenska fjármálaráðherrans: "Erlendir kröfuhafar eru sagðir telja furðu sæta að ríkið hafi tekið yfir sjóðina tvo, í ljósi þess að fáum dögum áður sagði í bréfi stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að endurskipulagningu sjóðanna myndi ljúka innan skamms."

Þarna stendur svart á hvítu að það er ekki aðeins Jóhanna sem lýgur sleitulaust í stjórnarráðinu, Steingrímur gerir það líka. Það er ekki orð að marka sem þessi ógæfumaður lætur út úr sér.

Ennfremur segir: "Að sögn Arnars Þórs óskuðu erlendir kröfuhafar eftir að sjá öll gögn málsins til að taka upplýsta ákvörðun, en fengu ekki. „Kröfuhafar komu ítrekað á framfæri áhyggjum sínum af framgangi málsins við íslensk stjórnvöld, en fátt var um svör.“"

Þarna sést hvernig allt er á sömu bókina lært hjá Jóhönnu og Steingrími. Þau hétu því að allt yrði uppi á borðinu en reyndin er sú að öllu er leynt, það er pukrast með allt, falsið og svikin ríða húsum og þegar á þau er gengið fara þau undan í flæmingi eða láta Hrannar B. Arnarsson ljúga fyrir sig.

Nú dúsir Hreiðar Már í dýflissunni. Steingrímur og Jóhanna ættu að vera þar líka. 

 


mbl.is Ríkið rúið trausti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurleg örlög og viðvörun foringjans

Þetta eru dapurleg örlög fyrir góðan dreng. Hreiðar Már er gervilegur maður og býður af sér ágætis þokka, alinn upp í litlu alþýðusamfélagi úti á landi. Í krafti geysilegra fjármuna var hann um skeið einn voldugasti maður landsins. Öll þjóðin gladdist yfir velgengni hans. 

Einhvers staðar á auðferlinum hefur Hreiðar Már skipt um siðferði og nú er hann vistaður í dýflissu eins og hver annar glæpahundur. Fall hans er mikið.

Stundum er hægt að benda nákvæmlega á þann stað og þá stund þar sem örlög manna eru ráðin. Krossgötur Hreiðars Más voru sá dagur þegar Davíð Oddsson labbaði niður í bankann og tók út sparifé sitt til að lýsa vanþóknun sinni á því ógurlega launasukki sem Hreiðar hafði ánetjast.

Ef Hreiðar hefði hugsað sitt ráð þennan dag og hlýtt á viðvörun foringjans, þá væri tvennt öðruvísi í dag: það hefði ekki orðið neitt bankahrun á Íslandi og hann sjálfur þyrfti ekki að dúsa í dýflissu innan um snærisþjófa og morðingja. 


mbl.is Hreiðar Már handtekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri menn eru vansælir þessi dægrin

Það er alveg óhugsandi að allir vinstri menn á Íslandi séu í sjöunda himni vegna hegðunar Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún situr um kyrrt í dyngju sinni og harðlæsir dyrum, hunsar fyllilega réttmætar fyrirspurnir og þegar ískuldinn kringum hana er orðinn óbærilegur sendir hún Hrannar Arnarsson út til þess að drepa málinu á dreif með einhverju þvaðri sem enga skoðun stenst.

Ég skal játa að stundum sakna ég gamla Sósíalistaflokksins og jafnvel Alþýðubandalagsins. Þar voru í stafni menn með lágmarks virðingu fyrir sjálfum sér. Þeir ræddu allt milli himins og jarðar og lögðu metnað í umræðurnar.

Nú læðast vinstri menn Íslands með veggjum. Þeir sitja blýfastir í fortíðarfarinu og harðneita að ræða málefni líðandi stundar. Það er athyglisvert að fylgjast með umræðum í fjölmiðlum og á netinu. Það heyrir orðið til undantekninga að vinstri maður reyni að styðja mál sitt gildum rökum.

Það fer ekki framhjá neinum að heiðvirðir vinstri menn eru vansælir þessa dagana.


mbl.is Kvartað undan skorti á svörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn eitt réttarhneykslið

Það er nákvæmlega ekki neitt samræmi milli dóma á Íslandi. Hér er á ferð forhertur stórglæpamaður sem fremur gróf kynferðisafbrot gegn fjórum stelpukrökkum og hann fær að launum fimm ára fangelsi.

Hvaða refsingu hefði þessi glæpamaður fengið annars staðar í heiminum? Mjög víða hefði hann verið tekinn af lífi og málinu þar með farsællega lokið. Sums staðar hefði hann fengið ævilangt fangelsi án mökuleika á reynslulausn. Á Íslandi fær hann fimm ár, sem í reynd mun þýða að hann verður aftur kominn á stjá eftir 1-2 ár, skellihlær að fórnarlömbunum og hælir dómurunum.

En öfgar dómstólanna teygja sig líka yfir á hinn kantinn. Þegar sauðdrukkinn og útúrdópaður lýður af ýmsum kynjum veltist hver um annan, káfandi og þuklandi, svo illa á sig kominn að enginn man með nokkurri vissu hvað gerðist og hvað gerðist ekki - þá þyngist brún dómaranna og þeir dæma einhvern auðnuleysingjann til þyngstu refsingar fyrir kynferðislegt áreiti og þær kvensniptir sem eiga hlut að máli fá allt að milljón krónum í miskabætur.

Við Íslendingar ætlum að taka til í pólitíkinni hjá okkur, við þurfum líka að taka til í gerspilltum fjölmiðlaheiminum og við þurfum að hreinsa til í dómsmálunum.

Nýja Ísland......hvenær kemur þú? 


mbl.is Fimm ára fangelsi fyrir gróf kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna er sjálf löðrandi í spillingu

Enn eitt dæmið um sleifarlag náhirðar Jóhönnu Sigurðardóttur. Þessi ríkisstjórn liggur á koddanum og dæsir og hrekkur svo upp með andfælum þegar sparkað er í hana.

það er út af fyrir sig skiljanlegt að náhirðin vilji ekki rannsaka spillingu því hún er sjálf löðrandi í spillingu. Hvar á heimsbyggðinni nema vinstra Íslandi myndi það líðast, þegar auglýst er eftir manni í eitt æðsta embætti ríkisins, að forsætisráðherra hafi samband við einn tiltekinn fagmann sem henni er þóknanlegur og heiti honum geysilegri launahækkun ef hann sækir um stöðuna?

Farsinn kringum Má Guðmundsson er ekki aðeins grátlegur, hann er þvílíkt sýnishorn af spillingu að mann setur hljóðan, enda harðneitar drottning náhirðarinnar að klofast út úr skítugri dyngju sinni til þess að horfa út í dagsljósið og svara fréttamönnum. 

Jóhanna Sigurðardóttir er ekki aðeins versti forsætisráðherra landsins frá upphafi, hún er líka sá spilltasti. 


mbl.is Eftirfylgni Íslands óviðunandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún er versti forsætisráðherra Íslands fyrr og síðar

Óskaplegur farsi er þetta að verða. Náhirð Jóhönnu lýgur, titrar og skelfur til skiptis, allir snúa út úr og enginn þykist kannast við neitt. Það hefur enginn haft umboð til þess að lofa manngarminum launahækkun nema Jóhanna sjálf, drottning náhirðarinnar, en nú reynir hún í hyldjúpri örvæntingu að ljúga sig frá veruleikanum.

Þótt vitleysan sé verri en tárum taki tók þó steininn úr þegar drottningin setti þau lög í landinu að enginn skyldi þiggja hærri laun af ríkinu en hún sjálf. Það voru reginmistök. Ráðherra er valinn á pólitískum forsendum og þarf svo sem ekki að hafa nokkurn skapaðan hlut til brunns að bera nema rétta flokksskírteinið, en embættismenn eru metnir eftir menntun, reynslu og hæfni.

Þótt Már Guðmundsson komi fyrir eins og sjálfumglaður, feiminn kjáni, efast ég ekki andartak um hæfni hans, reynslu og menntun. Hann verðskuldar tvímælalaust miklu hærri laun en Jóhanna Sigurðardóttir.

Bretar voru rétt í þessu að útnefna Gordon Brown versta forsætisráðherra Bretlands fyrr og síðar. Efast einhver maður um hver muni vera versti forsætisráðherra Íslands fyrr og síðar?


mbl.is Hækkun kemur ekki til greina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri menn starfa ekki af heilindum

Gordon Brown rak rýtinginn milli herðablaða íslensku þjóðarinnar þegar braskaralýðurinn var búinn að koma okkur á knén. Hann réðist að okkur þegar verst gegndi. Hann er fjandmaður Íslands. Nú ætla breskir kjósendur að veita þessum vinstri sinnaða skíthæl maklega málagjöld. 

Það er rétt hjá Manish Sood að Brown ætti að biðja Breta afsökunar en hann ætti líka að biðja Íslendinga afsökunar. 

Það er undarlegt hve erfiðlega vinstri mönnum gengur að starfa af heilindum, hvort heldur þeir eru á Bretlandi eða á Íslandi. Það er alltaf sami rassinn undir þessum mönnum. 


mbl.is Segir Brown versta forsætisráðherra sögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítflibba-tukthús er tímaskekkja

Fyrr eða síðar mun einhver verða dæmdur fyrir glæpaverk í öngþveiti bankakreppunnar. Atkvæðamestu bófarnir munu  vitaskuld sleppa. Því þeir hafa verndarenglana Brynjar Níelsson, Gest Jónsson og aðra stjörnulögmenn sér til til fulltingis og enginn dómstóll hefur roð við þeim. Öllum helstu ákæruliðum gegn stórbokkunum verður "vísað frá vegna formgalla". En þótt stórfiskarnir sleppi verða einhverjir smáfiskar veiddir í nótina, dregnir á land og steiktir á pönnu til þess að gleðja þjóðina.

En hvar eiga smáfiskarnir að afplána refsivistina? Hafa menn hugsað út í hvílík tímaskekkja það er að hafa tvö fangelsi í landinu? Litla-Hraun fyrir venjulega afbrotamenn  en lúxus gistihús á Kvíabryggju fyrir hvítflibbana?

Það er í rauninni óskiljanlegt að stjórnvöldum skuli hafa haldist það uppi öll þessi ár að mismuna fólki jafn gróflega. 

Kvíabryggja á að vera það sem það er nú þegar: yndislegt gistihús, en þó með þeirri breytingu að þangað mega allir fara og gista um nætursakir í sveitasælunni.

En Litla-Hraun þarf að stækka til muna því hvítflibba-tukthús er tímaskekkja. 


mbl.is Aðstoðar Black ekki óskað sem sakir standa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kommalýður með sultardropa og Rúna mín

Þessi kommalýður er ekki með öllum mjalla. Ég man eftir þeim norpandi fyrir utan Ríkið með sultardropann hangandi í nefinu, otandi byltingarsneplum að veðurhröktum almenningi sem var kominn um langan veg til þess að kaupa guðaveigar handa sér og sínum. Enginn amaðist við kommalýðnum þá.

Nú koma nokkrir frjálshuga framfarasinnar og gefa alþýðunni kók og pylsu, og það er ekki svo að fólk þurfi að híma þarna í biðröð langt út á götu eins og hjá Hjálpræðishernum, nei nú fá menn krásirnar afhentar samstundis og gera sér gott af þeim á staðnum.

En það er gott að  örli á kosningabaráttu. Maður hefur fram af þessu lítið heyrt frá stjórnmálamönnum - það eina sem hefur sannfært mig um að kosningar séu raunverulega í nánd gerðist um daginn þegar oddviti Vinstri grænna hér í Hafnarfirði bað mig um að skrifa upp á stuðningsyfirlýsingu við framboð sitt. Það gerði ég alls hugar fenginn því hún Rúna mín er eðalkommi í ættir fram og þegar hún verður orðin bæjarstjóri eftir mánaðartíma munu spretta laukar og gala gaukar hér í Hafnarfirði - hún Rúna hefur nefnilega umgengist mig það mikið um árabil og lært af mér margskonar meinhollar hægri hugmyndir sem munu nýtast henni frábærlega í framtíðinni. 

 


mbl.is Kvartar undan kosningaáróðri í sundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn hefur mig

Þetta er unaðsleg skoðanakönnun í þeim skilningi að nú kemst enginn Sjálfstæðismaður hjá að horfast í augu við þá fjallgrimmu staðreynd að kjósendum er rammasta alvara - íslenskir kjósendur vilja algera endurnýjun og engar refjar. Nú duga engin vettlingatök lengur. Íslendingar ætla ekki að láta gabba sig með tímabundnum leyfum og öðrum álíka bjánalátum.

Sjálfstæðisflokkurinn er að því leyti betur settur en aðrar stjórnmálahreyfingar að hann hefur mig sem ráðgjafa í þessum erfiðu málum. Það er kappnóg fyrir flokksforystuna að fylgjast grannt með blogginu mínu, leggja pistlana á minnið og fylgja þeim nákvæmlega eftir. Um daginn reit ég til dæmis:

"Illugi þarf að finna kröftum sínum nýjan farveg og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins þurfa einnig að rýma sæti sín fyrir nýju fólki. Nefna má án umhugsunar: Þorgerður Katrín, Erla Ósk, Tryggvi Þór Herbertsson, Guðlaugur Þór, Bjarni Benediktsson, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir."

Illugi og Þorgerður eru þegar farin veg allrar veraldar og nú þurfa hin sjö að hugsa sér til hreyfings og helst fyrir hádegi á morgun.


mbl.is Besti flokkurinn fengi fjóra kjörna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Baldur Hermannsson

Höfundur

Baldur Hermannsson
Baldur Hermannsson

Meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér. (Ibsen, lauslega snarað)

 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband