Agnes ætti að hætta

Ég hallast að því að Agnes Bragadóttir ætti að hætta eftir þessi mistök. Auðvitað eru þessi mistök ekki stórvægileg og Mogginn fljótur að leiðrétta þau, en þau eru samt þess eðlis að ekki verður vel við unað. Hugtakið "réttarstaða grunaðs manns" er skilgreint lagatæknilegt atriði og það gengur ekki að beita því án þess að kanna fyrst hvort það eigi við rök að styðjast.

Agnes Bragadóttir er einn snjallasti blaðamaður Íslands, ef ekki sá snjallasti. Feikilega vel að sér, fljótskörp og skrifar látlausan og skýran texta. Það er af sem áður var og nú um stundir er ekki um sérlega auðugan garð að gresja þar sem er blaðamannastétt landsins, og það verður sár missir að Agnesi.

Ég veiti því athygli að þeir fréttamenn sem sagt hafa upp vegna mistaka í starfi á liðnum árum, hafa nær allir komið til starfa aftur fljótlega. Menn axla ekki endilega ábyrgð með því að hætta fyrir lífstíð. Menn axla ábyrgð með því að hverfa úr starfi, endurnæra líkama og sál og snúa aftur helmingi skæðari en áður. 

http://www.dv.is/frettir/2011/2/2/morgunbladid-bidst-afsokunar-fyrir-hond-agnesar-bragadottur/ 


Bjarni ávinnur sér ekki traust fólksins

Sjálfstæðisflokkurinn er klárlega ekki að spjara sig í vörninni gegn verstu ríkisstjórn Íslandssögunnar. Fólkið kemur ekki auga á nægilegan styrk í Sjálfstæðisflokknum til þess að rífa Ísland upp úr vesöldinni. Þeir sem hatast við sterka foringja sjá nú árangurinn af því að hafa tvo handónýta forystumenn í ríkisstjórn. Það er aftur kominn tími á sterka menn í pólitíkinni. Það verður langt þangað til pólitískur flokkur á Íslandi teflir fram jafn slyttislegu fólki og þeim Jóhönnu og Steingrími.

En Bjarni Ben ávinnur sér ekki traust fólksins. Sjálfstæðismenn neyðast til að horfast í augu við þá járngrimmu staðreynd. 


mbl.is Litlar breytingar á fylgi flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver skipaði undirmáls manninn?

Ekki er ég alveg viss um þetta. Hvers vegna ætti Ögmundur að segja af sér?  Það fór ekki fram hjá neinum, sem hlýddi á makalausar hundakúnstir Ástráðs landskjörstjóra í Kastljósi í gær, að þar fer fullkomlega ábyrgðarlaus maður og raunar tifandi tímasprengja. Hann ber enga virðingu fyrir lögum, hann býr ekki yfir lágmarks rökvísi og er svo sjálfhverfur að undrum sætir.

Hvaða viti borinn maður lætur út úr sér aðra eins vitleysu: þegar lögin mæla fyrir um að kjörkassar skuli vera læstir, þá meina lögin alls ekki að kjörkassar skuli vera læstir því að krakkar gætu opnað þá með skrúfjárni.

Þessi setning ein og sér tekur af öll tvímæli um að maðurinn er gersamlega óhæfur til allra hluta er varða lög og rökskilning. Hver skipaði þennan mann landskjörstjóra? Sá sem það gerði á að taka pokann sinn og það strax, því hann er eðli málsins samkvæmt líka vanhæfur. 


mbl.is Tekur undir kröfur um afsögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðkurinn engdist á önglinum

Höfum eitt á hreinu: enginn viti borinn herforingi myndi ráða skemmtikraftinn Ómar Ragnarsson til þess að hanna vélbyssu  og engin kona myndi ráða hagfræðinginn Þorvald Gylfason til þess að framkvæma fóstureyðingu. Verkfræðingur og læknir eru réttu mennirnir í slík verkefni.

Það er heldur ekki vitglóra í því að sanka saman einhverjum Ómurum og Þorvöldum til þess að semja stjórnarskrá. Til þess fáum við hæfustu lögspekinga landsins og fyrir þeim skal fara Sigurður Líndal að sjálfsögðu.

Vinstri vitleysingarnir í ríkisstjórn eiga nú gullið tækifæri til þess að berja í brestinu svo eftir yrði tekið. Þeir eiga tafarlaust að skipa Sigurð Líndal í stjórnlaganefnd og með honum sex valinkunna lögspekinga. Það er eina...segi og skrifa: eina ....... vitlega aðferðin til þess að semja stjórnarskrá.

En brýnast af öllu er þó að halda frá þessu verki ofurgægsnum á borð við það sem Kastljós kynnti í kvöld.  Mér hefur aldrei líkað þegar veiðimenn þræða ánamaðk upp á öngul og aldrei hef ég séð nokkurn maðk engjast jafn ógurlega og þann sem þarna reyndi að ljúga sig frá hyskninni og dómgreindarleysinu.


mbl.is Óheppilegt að skipa fulltrúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna sparkar í kettina

Í sögulegu samhengi er töluvert til í þessum ummælum Steingríms Sigfússonar. Þetta vissu þeir Jón Baldvin og Steingrímur Hermannsson á sínum tíma, nema hvað þeir átu ekki hrútspunga saman heldur slokuðu í sig guðaveigar af bestu lyst ...... og þegar Þorsteinn Pálsson vildi heldur fara heim til Ingibjargar en drekka með þeim var honum sparkað út úr stjórninni. 

En Steingrímur Sigfússon veit líka að brigslyrði Jóhönnu eru hol að innan og hafa enga merkingu. Hún er bara að leiða athyglina frá sínum eigin vandræðum ...... liðin eru tvö ár í ríkisstjórn, hún hefur engu markverðu áorkað en eftir hana liggur slóði mistaka, spillingar, klúðurs, illvilja og heimsku.

Jóhanna sér að öllu er lokið en sparkar í villikettina í von um að ýlfrin í þeim dragi til sín athyglina frá hennar eigin vesöld.

Ekki eru nú stjórnarhættirnir stórmannlegir. 


mbl.is Eigum ekki að „hræra í innyflum hvers annars“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolröng viðbrögð allra

Landskjörstjórn hefði mildað höggið ef hún hefði haft rænu á því að segja af sér strax þegar Hæstiréttur kvað upp vel rökstuddan dóm sinn. En Ástráður ætlaði greinilega að athuga hvort hann kæmist ekki upp með ósómann. Ögmundur á líka að segja af sér og Jóhanna ætti vitaskuld að vera löngu farin. Skylt er að vekja athygli á stórgóðum pistli Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu í dag. Þar stendur meðal annars:

 

"Ákvörðun Hæstaréttar um að ógilda kosningar til stjórnlagaþings var mikið áfall. Í henni felst að dómsmálaráðherra hafi sniðgengið lagaákvæði um leynilegar kosningar í hagræðingarskyni. Innanríkisráðherra sagði á Alþingi að með þessari afstöðu hefði Hæstiréttur ekki tekið tillit til almannahagsmuna.

Þetta segir þá einu sögu að viðbrögð ráðherra voru meira áfall en ógildingin. Hvarvetna í lýðræðisríkjum hefði sá handhafi framkvæmdavaldsins sem borið hefði stjórnskipulega ábyrgð á svo alvarlegum mistökum tafarlaust þurft að taka afleiðingum þess að hafa ekki risið undir henni. Slík lagaleg og siðferðileg ábyrgð er svo víðsfjarri hugmyndaheimi forsætisráðherra að hann bað Alþingi ekki einu sinni afsökunar.

Í siðferðiskafla rannsóknarskýrslu Alþingis er sérstaklega fundið að því hvernig stjórnendur bankanna teygðu og toguðu túlkun á bankalöggjöfinni til að ná markmiðum sínum. Það var nákvæmlega þetta sem dómsmálaráðherra gerði við framkvæmd stjórnlagaþingskosninganna. Til að auðvelda framkvæmd þeirra var gengið á svig við skýr lagafyirmæli og áratuga hefðir sem tryggja eiga leynilegar kosningar. Hagræðingin var metin meir en mannréttindin.

Í siðferðiskafla rannsóknarskýrslu Alþingis er einnig fundið að því að eftirlitsaðilar skuli hafa túlkað lögin eins þröngt og verða mátti við mat á ábyrgð stjórnenda bankanna. Andi laganna um ábyrgð þeirra ætti að gilda. Þegar meirihluti Alþingis fjallar um ákvörðun Hæstaréttar sem eftirlitsaðili með framkvæmdavaldinu túlkar hann lögin um ábyrgð þess með sama hætti eins þröngt og verða má.

Þannig ganga fyrstu viðbrögð meirihluta Alþingis gegn mikilvægustu ábendingunum í siðferðiskafla rannsóknarskýrslunnar. Afsögn forsætisráðherra væri ekki óeðlileg. Fullharkalegt má þó telja að krefjast hennar. Skylda hans er hins vegar að sjá til þess að viðkomandi ráðherra axli pólitíska ábyrgð."

 

 

 


mbl.is Landskjörstjórn sagði af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæpanáttúra eða bara siðleysi?

Úti geisa umhleypingar, regnið lemur þök og rúður og við smælingjarnir erum dauðfegnir að hafa þó skjól fyrir þessum hamförum. En við eigum ekkert skjól fyrir þeirri alls herjar vitfirringu sem gripið hefur íslensku ríkisstjórnina. Nokkrir ungir vinstri menn á Alþingi hafa séð sóma sinn í því að biðja okkur fyrirgefningar á því dómadags klúðri sem skók þjóðina á dögunum og kostað hefur 600 milljónir króna. En ríkisstjórnin biður ekki um fyrirgefningu heldur steytir blóðugan hnefann og öskrar í trylltri reiði út yfir samfélagið.

Ríkisstjórnin ætlar að ausa 300 milljónum til viðbótar í tilgangslausan hégóma, stjórnlagaþing sem handbendi Jóhönnu í Háskólanum, Gunnar Helgi, hefur þó lýst sem algerlega áhrifalausu.

Ég velti því fyrir mér hvort vitfirringin eigi sér rætur í venjulega vinstra siðleysi eða er þarna á ferðinni miklu alvarlega fyrirbæri .... hreinræktuð glæpanáttúra?

Getur það talist eðlilegt að svala hégómagirnd sinni á kostnað almennings og fjármagna hana með því að fótum troða sjúklinga og gamalmenni, hrekja vinnandi fólk út í örvæntingu atvinnuleysis og örbirgðar, svelta börn og heilbrigðisstofnanir og skólakerfi.

Ég er ekkert undrandi á ofstækisfullum hártogunum ótíndra vinstri blogghænsna, því söm er þeirra gerð, en ég verð að játa að viðbrögð gamalreyndra marxista og kremlólóga á borð við Hilmar Jónsson og Björn Birgisson hafa komið mér í opna skjöldu.

Þeir verða núna að skoða stöðu sína hér á blogginu og íhuga hvort ekki væri þeim sæmra að fara að dæmi hinna ungu þingmanna sinna og biðja okkur fyrirgefningar.


mbl.is Eru að leika sér að eldinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mitt framlag til friðar í samfélaginu

Nokkrir vinstri menn hafa leitað til mín í dag og beðið mig um að finna leið út úr þeirri ógnar klípu sem ríkisstjórnin er nú í, og er mér ljúft að verða við þeirri málaleitan, enda var hún kurteislega fram borin. Hér eru fáeinir punktar.

Jóhanna Sigurðardóttir framdi pólitískt sjálfsvíg með skíthræðslu-ræðu sinni í gær. Hyggilegt er að láta Jóhönnu víkja nú þegar og fela Össuri embætti forsætisráðherra.

Staða Ögmundar er veik eftir úrtöluræðuna í gær. Yfirmaður dómsmála getur ekki talað niður lögin í landinu. Hyggilegt er að láta hann víkja og gera Lilju Mósesdóttur að ráðherra í staðinn. 

Vinstri flokkarnir eiga aðeins tvo þingmenn sem njóta virðingar og vinsælda .... það eru Lilja Mósesdóttir og Guðbjartur Hannesson. Þeim skal falið að leita sátta við þingheim og þá ekki síst Sjálfstæðisflokkinn, sem er mun stærri en Samfylking og Vinstri grænir til samans.

Lilja og Guðbjartur semji nýja löggjöf um stjórnlagaþing, í fullri sátt við þingheim, og boða til nýrra kosninga eftir eitt ár. Setja þarf sem skilyrði að 50% atkvæðisbærra manna taki þátt í kosningunni, ella teljist hún ómarktæk.

Ef Alþingi vinnur að þessu máli í fullri sátt og án stríðsæsinga Jóhönnu Sigurðardóttur er full ástæða til þess að búast við 60% þátttöku hið minnsta og farsælli niðurstöðu. Þetta er mitt framlag til friðar í samfélaginu og almennrar lífshamingju.

Virðingarfyllst, Baldur Hermannsson. 

 


mbl.is Skapa þarf vissu um framhaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótustu hliðar Jóhönnu

Jóhönnu Sigurðardóttur tókst að sýna allar sínar ljótustu hliðar á örskömmum tíma. Hreinn viðbjóður að horfa á hana lemjandi ræðupúltið og skrækjandi uppnefnin og svívirðingarnar út í salinn. Það nær ekki nokkurri átt að hafa forsætisráðherra sem hefur enga stjórn á skapi sínu þegar á móti blæs. Hún var eins og timbruð götustelpa, slík var framkoman, heiftin og munnsöfnuðurinn. Ríkisstjórnin ætti auðvitað að fara strax eftir þetta rándýra reginhneyksli, en það mun ekki verða .... til þess er þrjóskan og siðleysið of ríkt í þessu fólki. En forsætisráðherrann verður að snauta úr stjórnarráðinu og það strax í nótt þegar borgin hljóðnar. Össur getur tekið við forsætisráðuneytinu til bráðabirgða. Það er ekki bara hægt að bjóða þjóðinni upp á þetta lengur. 


mbl.is Íhaldið er „skíthrætt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallgerður langbrók er lang flottust

Við Sjálfstæðismenn verðum bara að kyngja því að Vigdís Hauksdóttir og Sigmundur Davíð stóðu sig best í þessari stuttu en geysihörðu rimmu á Alþingi. Vigdís er eins og Hallgerður langbrók, harðlynd og fögur með gullið hár og slegið, en hún er feiknarlega tannhvöss, orðfim og áheyrileg. Ég get ekki sagt að ég gerþekki skoðanir hennar en svakalega er þetta flottur stjórnmálamaður og bara flottur kvenmaður yfirleitt. Ég hlakka mikið til þess að fylgjast með henni í framtíðinni.

*

Sigmundur Davíð stendur sig alltaf vel og svo var nú. Sigmundur er óvenjulega djúphugull, ungur maður, og hefur hæfileika til þess að nálgast málin frá nýrri hlið. Hann varpaði nýju ljósi á umræðuna og það væri óráð að hunsa ábendingar hans.

*

Sorglegt var hins vegar að horfa upp á sjálfan forsætisráðherrann, Jóhönnu Sigurðardóttur, missa gersamlega stjórn á sér í lokin. Það var hræðilegt að sjá þessa vansælu konu berja reiðilega í blásaklaust ræðupúltið, skrækja út í salinn eins og pirruð hæna og uppnefna pólitíska andstæðinga sína. Er Jóhönnu fyrirmunað að sjá að hennar tími er löngu liðinn?

 


mbl.is „Allt mistekst sem þessi ríkisstjórn kemur nálægt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Baldur Hermannsson

Höfundur

Baldur Hermannsson
Baldur Hermannsson

Meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér. (Ibsen, lauslega snarað)

 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 340340

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband