Ríkisstjórnin verður að fara strax

Sá sem ekki viðurkennir núna undanbragðalaust að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms sé fullkomlega vanhæf og ófær til allra verka, sá maður á nánast ekki tilverurétt meðal viti borinna manna. Þvílíkt endemis, dómadags klúður! Þessi bannsetta ríkisstjórnar ómynd sem aldrei skyldi völdin tekið hafa hefur tekist að sólunda hálfum milljarði í ekki neitt, fáránlegan þjóðfund og síðan kosningar til enn fáránlegri stjórnlagaþings. Ríkisstjórnin verður ....já hún VERÐUR .... að fara strax.
mbl.is Stjórnlagaþingskosning ógild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþolandi pukur og leynimakk

Pukur og leynimakk stjórnarflokkanna er gersamlega óþolandi og er í raun og veru atlaga gegn lýðræðinu. Fyrst margir telja brýnt að samtalið komi fyrir almennings sjónir er skylt að birta það, almenningur á skýlausan rétt á því. Það kemur hins vegar engum á óvart að hin sígjammandi búrtík Norðurlands skuli leggjast gegn birtingu, því tíkin sú er ofurseld pukri og leyndarhyggju. Það kemur kannski meira á óvart að þingmaður Samfylkingar skuli leggjast gegn birtingu en það er því miður greinilegt að pukursáráttan geisar einnig á þeim bæ. Höskuldur Þórhallsson sýnir hins vegar að þar fer góður drengur og réttsýnn og afdráttarlaus framganga hans í þessu máli, alþýðu landsins til heilla, gefur fögur fyrirheit um framtíð hans í stjórnmálum þjóðarinnar.
mbl.is Segir samtalið eiga erindi við almenning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólkið vill ekki Birgittu Jónsdóttur

Birgittu Jónsdóttur væri fjandans nær að rannsaka sinn eigin þátt í tölvunjósnum á Alþingi frekar en að elta ólar við breskan kjaftask á Kárahnúkum .... mann sem engu máli skiptir. Tölvunjósnir á Alþingi eru reginhneyksli og enginn veit á þessari stundu hvort eða hve miklum persónulegum upplýsingum þessum gagnaþjófum hefur tekist að stela, hvers kyns prívat og persónulegum upplýsingum og einkabréfum sem enginn maður kærir sig um að lendi á glámbekk.

*

En Birgitta reynir að drepa þessu reginhneyksli á dreif með því að þusa um einhvern kjaftask á Kárahnúkum. Hafi þessi kjaftaskur liðsinnt lögreglunni skulum við þakka honum pent og senda honum ávísun í þakkarskyni. Þetta útlenda skemmdarverkapakk sem sló upp tjöldum til þess að trufla löglegar framkvæmdir kostaði íslenskan almenning stórfé og það er alltaf góðra góðra gjalda vert að ljóstra upp um svoleiðis hyski.

*

Og Birgitta mætti líka huga að síðustu skoðanakönnun og rannsaka sinn þátt í frjálsu falli Hreyfingarinnar. Fólkið kærir sig greinilega ekki um þingmann sem tekur sér frí frá þingstörfum til þess að berja þinghúsið utan og makkar þess á milli með alþjóðlegum njósnastofnunum.


mbl.is Vill rannsaka hvort flugumaður hafi aðstoðað lögreglu hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG: Fólkið úthýsir svikaranum ..... lýðræðið virkar!

Vinstri grænir eru í frjálsu falli og bráðum verða þeir minni en Framsóknarflokkurinn. Fólkið hafnar svikaranum og rekur hann með vendi úr húsum sínum. Vinstri grænir eru mesti og versti svikaraflokkur Íslandssögunnar. Aldrei hefur nokkur hópur manna gengið jafn herfilega bak orða sinna og Vinstri grænir. Og það ljótasta af öllu ljótu er að þeir fáu þingmenn sem sýnt hafa löngun til þess að standa við stefnu flokksins og efna kosningaloforðin .... þau hafa mátt þola kárínur og pústra af hendi hins illmálga formanns og rakka hans.

*

Vinstri grænir engjast í forinni, sakbitnir og skömmustulegir og eitthvað er nú fallegt við þá sjón. Lýðræðið virkar!


Sjálfstæðisflokkur nálægt hreinum meirihluta

Íslendingar eru búnir að taka í lurginn á Sjálfstæðisflokknum. Hann tók út sína refsingu svikalaust og hefur nú ferð sína að nýju. Nærri helmingur kjósenda styður Sjálfstæðisflokkinn. Hann nær því miður ekki hreinum meirihluta ..... en það stappar nærri því. Og hann mun enn auka styrk sinn ef nauðsynleg endurnýjun lánast vel á framboðslistum. Íslenska þjóðin veit sem er að Sjálfstæðisflokknum einum er treystandi fyrir efnahagsmálunum. Við munum ekki rífa okkur upp úr vesaldómnum fyrr en Sjálfstæðisflokkurinn er aftur kominn í ríkisstjórn. Þetta veit fólkið.

 


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ásta verður sér enn til skammar

Ásta Ragnheiður getur grobbað af fagkunnáttu njósnarans en hún getur ekki grobbað af sinni eigin frammistöðu. Þingforseta bar skýlaus skylda til þess að vara þingmenn við þessum njósnum svo þeir gætu brugðist við eins og þeim þætti best henta. Njósnarinn hefur augsýnilega lagt mikið á sig til þess að koma njósnatölvunni fyrir ..... og hann hefur greinilega fengið aðstoð einhvers sem er hagvanur þarna, þingmanns eða starfsmanns alþingis ....... og það er mjög líklegt að hann hafi fundið aðrar njósnaleiðir fyrst þessi brást. Og enginn veit hverju hann hefur áorkað með njósnum sínum áður en tölvan var uppgötvuð.

*

Mönnum er frjálst að hafa þennan atburð í flimtingum en skyldu nú þeir sem hæst hlæja kæra sig um að framandi fólk færi að gramsa í tölvum þeirra, lesa einkabréf frá ástvinum eða viðskiptamönnum, rekja vefsíður sem viðkomandi hefur heimsótt í áranna rás og þar fram eftir götunum. Ég hygg að hláturinn myndi skjótlega kafna í hálsinum á þeim ef þeir stæðu sjálfir andspænis þeirri staðreynd.

*

En Ásta Ragnheiður þingforseti hefur enn einu sinni orðið sér til rækilegrar skammar og það hefur forsætisráðherra einnig gert, þessum fraukum bar skylda til þess að vara þingmenn við en þær gerðu það ekki. 


mbl.is Fagmaður að verki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræmulegir umskiptingar

Þetta er algerlega marklaus ályktun. Aðeins 15 sálir mættu því heiðarlegt vinstra fólk lætur ekki lengur sjá sig á fundum VG. Jafnvel formaður félagsins sagði sig úr stjórninni fyrir örfáum dögum, svo ákaflega gekk sviksemi ríkisstjórnarinnar fram af henni. Það er leiðinlegt hvernig komið er fyrir VG. Þetta var heiðarlegur flokkur hér áður fyrr og hélt uppi nauðsynlegri gagnrýni á stjórnvöld. En það er eins og flokksmenn hafi umhverfst þegar þeir komust í ríkisstjórn. Þeir eru ekki lengur sömu menn og þeir voru. Flokkurinn er rotinn að innan og yfirbragð hans hræmulegt. Heiðarlegt vinstra fólk leggur lykkju á leið sína þegar það mætir VG-mönnum á götu.

*

Sjá nánar eðalblogg Jóhannesar Ragnarssonar: http://joiragnars.blog.is/blog/joiragnars/entry/1135127/#comment3083476 


mbl.is Lýsa stuðningi við stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott á Reykvíkinga

Þetta er eins og að lesa samtal við fæðingarhálfvita. Reykvíkingar kusu þennan mann og nú hefnist þeim fyrir glópskuna. Allar álögur snarhækka í Reykjavík. Alþýðan hefur ekki lengur efni á að ferðast með strætó. Litlum skólabörnum er miskunnarlaust fleygt úr strætisvögnum og þau látin keifa í skólann hágrátandi í öllum veðrum. Sorpið hrannast upp í haugum og ýlduþefinn leggur yfir borgina. En borgarstjórinn flissar og ræður sér nýjan aðstoðarmann á hverjum degi og hvítabjarnarnýlendan bíður í Laugardalnum. Reykvíkingar kusu eins og fífl. Nú hefnist þeim og það er gott á þá.
mbl.is Samskiptin við minnihlutann tímaeyðsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stelur Wikileaks frá íslenskum þingmönnum?

Öll einkennisnúmer hafa verið máð af þessari tölvu svo annað hvort er hún illa fengin eða fyrir komið á þessum stað í illum tilgangi. Menn leiða getum af því að Wikileaks eigi hlut að þessu máli og tilgangurinn sé að brjótast inn í tölvur þingmanna og stela þar upplýsingum. Þetta kann vel að vera rétt. Einn þingmanna, Birgitta Jónsdóttir, er handgengin Wikileaks, og svo má minna á að einn aðal sérfræðingur Wikileaks var hér á Íslandi fyrir skömmu og gaf engar skýringar á ferðum sínum. 

*

Er lýðræðið í hættu vegna  svona njósnastarfssemi? Varla, en svo mikið er þó víst að ekki greiðir það fyrir eðlilegu starfi þingkjörinna fulltrúa ef þeir eiga stöðugt á hættu að kunnáttumenn steli gögnum þeirra og hagnýti sér í annarlegum tilgangi.


mbl.is Grunur um njósnir á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurður Kári tuktar Þráinn

Mér var bent á rétt í þessu að erfitt væri að opna síðustu færslu og birti hana því aftur með von um betri árangur:

*

Það er gaman að sjá unga menn vaxa í starfi og breytast úr léttadreng í fullgildan háseta. Nú er Sigurður Kári Kristjánsson orðinn einn af sterkustu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, rammur að afli, hugdjarfur, orðheppinn og mígfyndinn og leggst vel á árarnar þegar róið er beint upp í vindinn. 

*

Það er gaman að sjá hve vinstri skriffinnum liggur illa orð til Sigurðar Kára. Það sannar svo ekki verður um villst að þar fer drengur góður og mannvænlegur. Hann er býsna vel menntaður,  kýrskýr, fróður og rökvís og fer aldrei á handahlaupum í málin, heldur reifar allt snöfurmannlega og styður gildum rökum.

*

Þráinn Bertelsson og aðrir léttadrengir vinstri flokkanna ríða ekki feitum truntum frá orðaskiptum við Sigurð Kára. Hann er framtíðarmaður á þingi en þeir munu allir hverfa eins og illur draumur þegar þjóðin vaknar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Baldur Hermannsson

Höfundur

Baldur Hermannsson
Baldur Hermannsson

Meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér. (Ibsen, lauslega snarað)

 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 340773

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband