Færsluflokkur: Dægurmál

Bestu konur í heiminum

Þetta er allt konunum okkar að þakka. Þótt þær þenji sig og viðhafi allskyns stæla þá eru þetta bestu konur í heiminum. Dálítið brussulegar og háværar en það er bara betra. Þær dekra við okkur. Þær elda ofan í okkur hollasta mat sem völ er á í heiminum. Þvo af okkur. Búa okkur snyrtileg og hlýleg heimili. Hlífa okkur við amstri og uppvaski. Verst þegar þær heimta að við ryksugum gólfin. Að öðru leyti eru þær fullkomnar. Trixið er að láta þær halda að þær ráði - þá eru þær eins og hugur manns. Svo er náttúrlega hitt sem við ræðum ekkert um - þar eru þær líka bestar í heiminum.
mbl.is Íslenskir karlar verða karla elstir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Honum helst illa á konum

Guðjóni helst illa á kvenfólkinu og er þó frægur maður, þingmaður og flokksformaður. Hvernig verður þetta eftir þrjár vikur þegar hann á ekki neitt og er ekki neitt, grafinn og gleymdur?
mbl.is Segir skilið við Frjálslynda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú líður mér illa

Ég fyrirverð mig fyrir að hafa haldið með Manchester United í þessum leik. Ég gerði það nauðbeygður. Arsenal verður að skapa gjá milli sín og Aston Villa, annars er 4. sætið ekki tryggt. En Villa-sveinar börðust hetjulega og það hefði verið frábært að sjá þá bera sigurorð af skrímslinu vonda.

Vegna stöðunnar á stigatöflunni hélt ég með Manchester og nú líður mér illa.


mbl.is Táningur tryggði Man.Utd dýrmætan sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örmagna kynjakjaftæði

Einkennilegar áherslur verð ég að segja. Er það nú höfuðmálið hvort karlmenn eða konur skipa sætin í flokki sem mun ekki koma að neinum manni? Ægilega er þetta orðin þreytt umræða. Eiginlega örmagna umræða. Hvergi í veröldinni eru fjölmiðlamenn jafn andsetnir af kynjakjaftæði og hér á landi. Látum liggja milli hluta hverslags dót er á milli læranna á fólki. Ræðum heldur persónuleika, dugnað, menntun og reynslu. Hættum þessu ófrjóa kynjakjaftæði.
mbl.is Rýrt hlutfall kvenna hjá Frjálslyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyfum heiðvirðu fólki að bera skammbyssur

Hvers vegna eru menn að ragast í þessu máli? Þótt löggan finni óþokkana verður ekkert við þá gert. Þeir fá kannski nokkurra mánaða skilorð. Látnir greiða 45 000 króna sekt í mesta lagi. Ísland er löglaust land. Hér má myrða, berja, skera, stinga, dópa og nauðga. Það er að vísu amast við því formlega séð en refsingar eru svo vægar að þær skipta ekki máli. Trúlega væri einfaldara að skipta sér ekkert af þessu en leyfa heiðvirðu fólki þess í stað að bera skammbyssur og verja sig.
mbl.is Kominn úr öndunarvél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfðu þá Davíð og Steingrímur á réttu að standa?

Var að hlusta á Michael Hudson í Silfri Egils. Hann segir það mikil mistök að blanda geði við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og fara að ráðum hans. Þetta gerir enginn viti borinn maður lengur, segir Hudson. Lánveitendur bera meiri ábyrgð en lántakendur, segir hann. Þegar illa fer bera þeir einfaldlega ekkert úr býtum.

Michael Hudson er virtur sérfræðingur og það er ekki hægt að hunsa þessi ummæli. Höfðu þeir þá rétt fyrir sér, Davíð Oddsson og Steingrímur, þegar öllu er á botninn hvolft? Áttum við hreinlega að neita að borga vegna þess að kerfið var hrunið?

Egill Helgason á þakkir skildar fyrir góðan þátt. Hann tekur góðar rispur með útlendum sérfræðingum á borð við Hudson og Evu Joly. Hann skilur málefnið, skilur hvað við hann er sagt og lætur samræðuna fljóta vel áfram. Þetta geta ekki aðrir sjónvarpsmenn okkar.


Engin eftirsjá að Valgerði

Það er engin eftirsjá að þessari konu. Henni fórst óhönduglega í bankamálinu og ætla ég þó ekki að skella allri skuld á hana. Hún var innsti koppur í flokkseigendafélagi Framsóknar og flæmdi ágætan dreng, Bjarna Harðarson, á vergang. Ýmislegt vann hún þó vel, svo sem álvæðingu Austurlands. Hafi hún þökk fyrir það verk en skömm fyrir önnur.
mbl.is 22 ára þingferli Valgerðar lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún lærði ósómann af Ögmundi

Frammíköll voru stunduð á kosningafundum til sveita í gamla daga og þóttu góð skemmtun. Sumir ræðumenn voru snillingar að henda á lofti frammíköllin og ýmist snara þeim til baka eða nota þau til að fleyta ræðunni áfram. Lúðvík Jósepsson þótti góður, svo og Karvel Pálmason. Eiður Guðnason, sá mæti maður, komst aldrei upp á lag með þetta. Hann lét frammíköllin pirra sig. Fólk vill helst ekki pirraða pólitíkusa.

Ég kann ekki að meta frammíköll á Alþingi. Þau eru virðingarleysi við þingið. Arnbjörg á ekki að láta svona. En hún hefur vísast lært þennan ósóma af Ögmundi Jónassyni sem tíðum fær óstöðvandi munnræpu þegar aðrir eru uppi í pontu og láta sér um munn fara eitthvað sem honum mislíkar.


mbl.is Yfirgjammari þingsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarmenn hugsa með innýflunum

Þetta er bæði ánægjuleg könnun og kostuleg. 88% Íslendinga eru ánægðir með líf sitt. Ég er ekki viss um að aðrar þjóðir komist með tærnar þar sem við höfum hælana. Það kemur auðvitað engum á óvart að fýlupokarnir skuli kjósa Vinstri Græna. Sá flokkur var stofnaður af fýlupokum fyrir fýlupoka. Þar hæfir kjafti skel.

Hitt er stórmerkilegt og umhugsunarvert að Framsóknarmenn skuli vera ánægðastir allra. Er það vegna þess að þeir láta ekki hugsjónir eða siðferði flækjast fyrir sér en hugsa mest um eigin hag og líta á pólitík sem meðal til þess eins að bæta stöðuna fyrir sjálfa sig?

Eða er það vegna þess að þeir standa með báða fætur á jörðunni, hugsa með innýflunum og haga lífi sínu eins og gildur bóndi sem lætur hverjum degi nægja sína þjáningu, ætlar sér ekki um of en gætir þess að eiga alltaf fyrningar í hlöðunni?


mbl.is 88% ánægð með líf sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni ber ægishjálm yfir aðra formenn

Bjarni Benediktsson bar ægishjálm yfir keppinauta sína. Hann er eini formaðurinn í íslenskum stjórnmálaflokki sem ber skynbragð á fjármál. Þar sem umræðan snerist nær einvörðungu um fjármál fór ekki hjá því að hann yrði þungamiðjan í hópnum. Tillögur hans allar voru mjög skýrar og afdráttarlausar. Það var áberandi hvernig hinir formennirnir horfðu æ meir til hans eftir því sem leið á þáttinn. Þeir fundu sem var að hann er þeirra öflugastur.

 

Jóhanna var úti á þekju eins og venjulega, veifaði vísifingri eins og kökukefli og fór með staðlausa stafi. Hún var búin að læra sitt hlutverk utan að og leikræn tjáning var óaðfinnanleg. Það er ekkert á henni að græða en hún er heilög Jóhanna, til hennar eru engar kröfur gerðar og það skiptir nákvæmlega engu máli hvaða þvæla rennur fram af hennar vörum – dýrlingum er ævinlega fyrirgefið.

 

Það er gaman að sjá gamla fólið Steingrím svona innilega hamingjusaman. Geðvonskan og skætingurinn alveg horfinn. Það var þá bara ráðherrastóll sem vantaði undir hann allan þennan tíma sem hann hefur þreytt þjóðina með þvergirðingshætti og reiðiköstum.

 

Sigmundur Davíð er enn þá lítt skrifað blað. Hann kemur greindarlega fyrir sjónir, slær á ýmsa strengi og er ekki fyrirsjáanlegur í tilsvörum. Hann hefur gert afdrifarík mistök strax í byrjun formannstíðar sinnar og óvíst að honum endist pólitískur aldur til að bæta fyrir þau.

 

Guðjón Arnar er vonandi að kyrja sinn svanasöng í pólitík. Engu hefur hann til leiðar komið og að honum verður engin eftirsjá. Þór Saari og Ástþór Magnússon eru báðir gestir úr fjarlægum sólkerfum og verða vonandi ekki í fleiri sjónvarpsþáttum. Nærvera þeirra hefur truflandi áhrif og skaðar bara umræðuna.

  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Baldur Hermannsson

Höfundur

Baldur Hermannsson
Baldur Hermannsson

Meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér. (Ibsen, lauslega snarað)

 

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 340882

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband