Færsluflokkur: Dægurmál

Kratablækur verða sér til skammar

Enn eina ferðina hafa norsku kratablækurnar orðið sér til skammar með bjánalegri útnefningu. Obama hefur ekkert unnið sér til frægðar og allra síst á vegum friðar og mannástar. Hann herðir hernaðinn í Austurlöndum, og þótt það sé gert til að klekkja á talibönum, þá er það ófriður samt en ekki friður. Reyndar hafa stríðsherrar löngum réttlætt hernað sinn með sömu röksemd - þeir heyja styrjaldir til þess að tryggja friðinn.

Þetta er ákaflega vond uppákoma. Obama veit hvað þetta er bjánalegt og fyrirverður sig. Heima fyrir sitja Ameríkanar og eru fúlir yfir því að forsetinn þeirra skuli vingast við Evrópska krata. Bandaríkjamenn hafa skömm á Evrópskum sósíalistum. Þeir vilja frjálshyggju, einstaklingsfrelsi, djörfung og dug en ekki deyðandi hönd sósíalismans.


mbl.is Obama tekur við Nóbelnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jói í Bónus, Maddaman og meistari Hannes

Jói í Bónus er snjall maður og það er útilokað að hann hafi gengið fyrir Háskólamaddömuna til þess eins að kvarta yfir meistara Hannesi Hólmsteini. Jói er ekki svona vitlaus. Hann var örugglega með betri hugmyndir í farteskinu. Hann hefur alltaf haft lag á því að kaupa hið svonefnda almenningsálit og þó að orðstír hans hafi lent í ræsinu um sinn hef ég fulla trú á því að hann muni endurheimta sess sinn með þjóðinni. Hann mun styrkja Mæðrastyrksnefnd veglega rétt fyrir jólin. Hann mun fitja upp á samstarfsverkefni Háskólans og Bónusar. Baugsmiðlarnir munu hrína af velþóknun. Og almenningur mun hrína af hrifningu og syndir sonarins verða honum fyrirgefnar. Jói í Bónus hefur ráð undir rifi hverju.

Vel má vera að hann hafi minnst á meistara Hannes í leiðinni en það var þá bara til að setja þrýsting á Háskólamaddömuna. Jói í Bónus, Maddaman og meistari Hannes. Jói er lífsreyndur maður og veit að stundum er þríhyrningur öflugri en par.


mbl.is Jóhannes á fund rektors
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löggumorðingjar og Álfheiður Ingadóttir

Álfheiði Ingadóttur verður ekki vært í ríkisstjórninni eftir að þessar bótakröfur hafa komið fram. Hún verður að víkja úr sæti heilbrigðisráðherra. Vinstri grænir ættu ekki að gráta það, því þeir hafa á að skipa margfalt hæfari þingmanni, sem er Lilja Mósesdóttir. Ég segi nú ekki að Lilja sé eina manneskjan með viti í stjórnarflokkunum, en hún er sú eina sem reiðir vitið sitt í þverpokum. Hún er að auki vel menntuð, heilsteypt og heiðarleg. Ef einhver glóra væri í vinstri flokkunum myndu þeir gera Lilju að forsætisráðherra nú þegar, því hún er eini þingmaður þeirra sem fagnar almennu trausti meðal þjóðarinnar.

Hvar sem þú kemur á byggðu bóli er litið á löggumorð sem einn alvarlegasta glæp sem hugsast getur. Viðurlög við löggumorðum eru hvarvetna sérstaklega ströng. Og öllum þeim er standa fyrir árásum á lögregluþjón í starfi er refsað miklu harðar en öðrum glæpamönnum. Það er vegna þess að án lögregluþjóna væri hér ekki siðmenntað samfélag. Þeir leggja líf sitt í hættu til þess að bjarga öðrum, stilla til friðar og varðveita lögin í samfélaginu.

Álfheiður Ingadóttir getur vitanlega svarað því til að hún hafi engan drepið en sök hennar í þessu viðurstyggilega máli er óbærileg. Meðan grjóthríðin buldi á lögreglumönnunum stóð hún úti í glugga, steytti hnefann og eggjaði skrílinn til ódæðisverkanna. Sumir þessara lögregluþjóna verða aldrei samir menn eftir orrusturnar á Austurvelli. Þótt enginn þeirra hafi enn þá látið lífið eru lífsgæði þeirra skert og það er alkunna að svona meiðsl geta háð mönnum ævilangt og stytt þeim aldur þótt síðar verði.

Alþingi ætti með réttu að svipta Álfheiði þinghelgi nú þegar og láta sækja hana til saka. Því miður eru vinstri flokkarnir of siðspilltir til að gera það, en það er lágmark að þeir reki úr ráðherraembætti manneskju sem hefur beitt sér fyrir árásum á lögregluþjóna í starfi.

Reyndar ættu lögregluþjónarnir að stefna yfirmönnum sínum líka því þeir brugðust þeim illilega. Lögreglan beitti alls ekki því afli sem hún hafði fullan rétt til að beita og hefði komið í veg fyrir eignatjón og limlestingar. En það er önnur saga.

Álfheiður Ingadóttir verður að hverfa og því fyrr því betra.

 


mbl.is Níu lögreglumenn krefjast bóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegar myndir segja svo margt

Ein mynd segir meira en þúsund orð. Gömul klisja að vísu en stundum segja klisjurnar satt. Takið eftir ljósmyndunum af þeim hjónum. Þær eru allar eins. Hún hjúfrar sig upp að honum, mænir á hann aðdáunaraugum, hlær út að eyrum svo fallegu hvítu tennurnar ljóma - hann starir þungbúinn út í loftinn með hugann við golfið og hjákonurnar.

Hvaða sögu segja þessar myndir? Dálítið sorglegar, ekki satt?

Ég var að vona að Elin myndi fyrirgefa honum en núna líst mér illa á stöðuna.


mbl.is Eiginkonan farin frá Tiger
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Indriði ber höfuðið hátt

Ískaldir vetrarvindar blása nú um Indriða H. Þorláksson. Bloggverjar ausa yfir hann skefjalausum óhróðri eins og væri hann margdæmdur raðmorðingi staðinn að verki. Fjölmiðlar senda honum tóninn á heldur fágaðra tungumáli en fjandsamlegu þó.

En er Indriði sá misyndismaður sem af er látið? Ég hef aldrei séð neitt í þessum manni annað en góðan og þjóðhollan Íslending og svo er einnig nú. Hann kann að vera vinstri maður og það er auðvitað slæmt afspurnar, en að öllu öðru leyti virðist hann vera stakur heiðursmaður og þegar fýkur í sporin og menn fara að skrifa um hann minningargreinarnar, þá mun þess eflaust líka getið að hann hafi aldrei mátt aumt sjá og verið hvers manns hugljúfi.

Indriði stendur í ströngu núna, spjótalögin eru þétt og pústrarnir harðir, en það hygg ég að þegar stríðinu slotar muni Indriði ganga af vígvellinum lítt særður með höfuðið hátt að vanda.


mbl.is Vildu sýna fram á að Ísland væri að vinna að Icesave-lausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyddur og foreldrar fá rauða spjaldið

Fanturinn Egill Skallagrímsson forfaðir okkar var ekki nema sex ára gamall þegar honum sinnaðist við leikfélaga sinn og drap hann með öxi. Móðir Egils brást við á sama hátt og foreldrar Arnars Birkis - hún lauk á hann lofsorði fyrir verknaðinn og kvað hann vera víkingsefni. Þau orð rættust því miður, Egill fór um byggðir grár fyrir járnum og sálgaði fólki af hjartans lyst uns hann gerðist of gamlaður til að drepa.

Það hendir margan mann að gerast sekur um fantaskap og jafnvel níðingshátt, en ég verð alltaf jafn hnugginn þegar foreldrar bera í bætifláka fyrir fantana. Nær væri foreldrum Arnars Birkis að taka drenginn ærlega á beinið og leiða honum fyrir sjónir að svona hegðun er ekki aðeins ódrengileg, hún er líka stórhættuleg, því með henni getur hann lemstrað menn illilega og jafnvel eyðilagt feril þeirra.

Það er hjákátlegt að bera því við að Arnar sé aðeins sextán ára, menn hafa lagt undir sig lönd og álfur á þessum aldrei og aldrei hef ég hitt sextán ára mann sem taldi sig annað en fullorðinn mann og ábyrgan gerða sinna.

Ég spái engu slæmu fyrir Arnar Birki, þvert á móti vona ég að hann læri af þessu atviki, en foreldrar hans fá rauða spjaldið og sömuleiðis lyddurnar í Fram.


mbl.is Yfirlýsing frá Fram og foreldrum Arnars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rífandi skemmtilegt viðtal

Alltaf skal Agli Helgasyni takast best upp í tveggja manna tali, og þá sér í lagi þegar hann ræðir við útlenda spakvitringa á borð við Boyes þennan eða Evu Joly. Og ekki skemmir þegar honum gefst tækifæri til þess að hella olíu á elda Davíðshatursins, þá magnast Egill upp í islömskum trúarhita og verður vart maður einhamur.

Þetta var rífandi skemmtilegt viðtal og ég var heppinn að hafa gesti á heimilinu sem inntu eftir Silfrinu, því ég er almennt orðinn leiður á Agli og því stjórnlausa fjasi sem viðgengst í Silfrinu. Roger Boyes sér þjóðlífið með hinu glögga gestsauga, og það er löng hefð fyrir svona lífrænni og dálítið glannalegri fræðimennsku á Bretlandi. Breskur fræðimaður og rithöfundur sagði mér fyrir tveim áratugum að þar í landi þætti skemmtanagildið ekki lítilvægara en fræðagildið, andstætt því sem gerist á Norðurlöndunum, þar sem fræðin þykja því merkilegri sem þau eru leiðinlegri.

Ég ætla að lesa Meltdown Iceland eftir Boyes, en fyrst mun ég ljúka við Umsátrið, sem er ekki síðri fræðibók um bankahrunið. Því fleiri sjónarhorn sem við höfum á þennan ógurlega atburð, því skýrari verður heildarsýnin.


mbl.is Boyes: Of mikil áhersla á ál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mega múslimar drepa konur?

Sharia-lög er þetta kallað meðal múslima. Sæmdarmorðin eru hluti af þeirri ókræsilegu menningarhefð. Milljónir múslima hafa streymt til Vesturlanda og haft með sér í farteskinu hryllilegar hefðir sem nú eitra þjóðlíf okkar Vesturlandamanna. Stjórnvöld okkar hafa brugðist skyldum sínum. Stjórnvöld áttu að tryggja að hingað kæmu engir þeir menn sem eigi virða lög okkar og reglur. Það er meira en nóg að sitja uppi með okkar eigin glæpalýð þótt þessi ófögnuður bætist ekki við.

En menn verða að gera skarpan greinarmun á trú og siðum. Það er alls ekki svo að allir þeir múslimar sem hingað koma aðhyllist forneskjuna. Ég hef kynnst ágætis mönnum sem aðhyllast Islam og gætu verið fyrirmynd annarra um kristilegt siðgæði. Þetta eru menn frá Albaníu og Kosovo. Það er búbót að slíkum mönnum en hina, sem hunsa lög okkar og siði, ber að gera afturreka sem snarast.

Þorgeir Tjörvason hefur orðað þetta betur en nokkur annar: "Svo líst mér sem málum vorum sé komið í ónýtt efni, ef eigi hafa ein lög allir, en ef sundur skipt er lögunum, þá mun og sundur skipt friðinum, og mun eigi við það búa."

Vera má að vefstjóri krefjist þess að ég fjarlægi þessa færslu eins og ég hef áður mátt sæta, og þá geri ég það. Því svo er að sjá að ekki megi ræða kvennadráp, sæmdarmorð og Sharia-lög hér á moggablogginu.


mbl.is Ætluðu að lífláta konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jónína Ben er ljóska dagsins.

Þrjár þingeyskar ljóskur eru ofarlega í huga mér þennan regnvota laugardagsmorgunn. Það eru þær Jónína Ben, Arnþrúður Karls og Linda Pé. Þessar ljóskur eiga það sammerkt að þær rekast hvergi í flokki, þær eiga ekki samleið með dusilmennum, þær ferðast um heimsbyggðina og lenda í ótrúlegustu ævintýrum, þær töfra karlmenn með kynþokka sínum, heilla konur með dirfsku sinni og sjálfstæði, þær leggjast ótrauðar í nýsköpun, stofna fyrirtæki jafn auðveldlega og aðrir ropa eftir matinn, þær eru ástríðufullar og verður hált á tilfinningum sínum, þær steypast fyrir björg en spretta á fætur jafnharðan öflugri en nokkru sinni fyrr. Þær eru tröllkonur að burðum en álfkonur að fegurð og þokka. Mörgum þykir nóg um bröltið í þeim en enginn getur neitað því að þær eru snillingar. Svakalega værum við fátækir, Íslendingar, ef við ættum ekki þingeysku ljóskurnar þrjár.

Nú hefur Jónína Ben kvatt sér hljóðs eina ferðina enn með grein í Mogganum í dag. Það er góð þumalputtaregla að lesa allt sem Jónína skrifar og taka mark á því. Þessi regla er án undantekninga. Hún sá alla spillinguna í fjármálakerfinu og benti á hana þegar aðrir litu undan. Hún sá flærð Bónusveldisins þegar aðrir vörpuðu sér á kné og tilbáðu heilagan Jóhannes. Þegar Jónína kom í sjónvarpið og sagði sannleikann baðst útvarpsstsjóri opinberlega afsökunar á orðum hennar. Skyldi hann vera búinn að biðja hana afsökunar á afsökunarbeiðninni?

Þingeysku ljóskurnar eru konur Íslands og Jónína Ben er ljóska dagsins.

(PS Þakkir færðar Árna Gunnarssyni sem leiðrétti málvillu í þessari færslu. Árni verðskuldar þingeyska ljósku fyrir þetta.)


Leyfum skáldunum að ljúga

Jónas Freydal er orðhagur maður og drátthagur mjög, eins og fram hefur komið í málverkafölsunarmálum. Hann hefur níu líf eins og kötturinn og það er sama hve oft og hve harkalega tilveran fleygir honum fram af klettasnösum, alltaf skal Jónas Freydal koma standandi niður. Menn þurfa ekki annað en gúggla Jónas Freydal og þá þyrlast um fornar fréttir af svikum, fláræði, þjófnuðum og fjárdrætti, því Mr. Google þekkir Jónas betur en hann þekkti norska seðlabankastjórann hér um árið.

Nú hefur Jónas unnið fyrir sér um hríð með því að segja útlendingum lygasögur af draugagangi. Það hefur alltaf tíðkast hér á landi að ljúga að útlendingum og kom okkur ekki í koll fyrr en við gerðum þau mistök að leggjast í útrás með lygina, svikin og prettina að vopni.

Ég hef alltaf samúð með mönnum sem rekast illa í tilverunni en freista þess að bjarga sér sjálfir í stað þess að leggjast upp á sjóðakerfið. Ég get nú ekki séð að Jónas Freydal hafi unnið mikinn skaða með þessum glæfralegu sögum sínum. Skáldin eru sískrifandi um dauða menn og lifandi og gera þeim upp allskonar tilburði til þess að skemmta lesendum sínum og þiggja hrós fyrir. Halldór Kiljan samdi sögur, sem þóttu góðar, um látna og lifandi. Nú síðast hefur Böðvar Guðmundsson skrifað langa frásögn sem öll byggist á æviferli Bruno Kress, sem liggur dauður í þýskri mold og getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér.

Er nú ekki hyggilegast að skrúfa niður í ofstopanum og leyfa manninum að vinna fyrir sér með skemmtilegum skröksökum, sem engu tjóni valda? Leyfum skáldunum að ljúga.


mbl.is Falsaðar sögur af látnum ekki líðandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Baldur Hermannsson

Höfundur

Baldur Hermannsson
Baldur Hermannsson

Meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér. (Ibsen, lauslega snarað)

 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband