Færsluflokkur: Dægurmál

Bónusfeðgar eiga almenningsálitið

Það er algerlega borin von að réttlætið nái fram að ganga í þessu máli. Dómstólarnir ættu að hafa vit á því að stöðva málið nú þegar. Það er löngu ljóst að embætti saksóknara ræður ekki við stjörnulögfræðinga Bónusfeðga. Þeir Jón og Jóhannes hafa á að skipa snjöllustu, lærðustu, duglegustu og útsmognustu lögfræðingum Íslands. Hið opinbera teflir fram annars flokks mönnum með lágar prófseinkunnir, léleg laun og óheyrilegt vinnuálag. Og þar við bætist að íslensk lög ná ekki utan um jafn volduga starfssemi og hér er um að ræða. Íslensk lög ná yfir sjoppuræningja og stúta undir stýri en þau hreinlega gilda ekki um Bónusfeðga.

Og það hefur líka gríðarleg áhrif að allur almenningur styður Bónusfeðga. Þegar þeim varð ljóst að syrti í álinn með réttarstöðuna voru þeir ekki höndum seinni að kaupa upp fjölmiðlamarkaðinn í heilu líki, dagblöð, sjónvarpsstöð og tímarit. Bónusfeðgar hafa stýrt almenningsálitinu um árabil eins og Herbert von Karajan stjórnaði hljómsveitunum á sínum tíma. Bónusfeðgar eiga almenningsálitið.

Hvernig mun ákæruvaldinu vegna þegar öll glæpamennskan vegna bankahrunsins kemur fyrir dómstóla? Góðir hálsar, við skulum ekki gera okkur neinar gyllivonir. Réttlætinu verður ekki heldur framfylgt þar. Við getum kannski gert okkur vonir um að góma einhverja sökudólga fyrir minniháttar svik sem lögin ráða við - þannig náðu menn Al Capone á sínum tíma - en meira verður það ekki. Sennilega væri viturlegast að sólunda ekki fjármunum og tíma í málssóknir því þær munu ekki bera teljandi árangur.


mbl.is Tekist á um tvöfalda refsingu í Baugsmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Móðgun við menninguna

Stjórnin gerir hárrétt í því að leggja niður þessa stofnun og þótt fyrr hefði verið. Skattgreiðendur eru þvingaðir til að standa undir fjölmörgum opinberum útgjaldaliðum sem engum tilgangi þjóna og nú er lagið að uppræta þá. Þar er ekki um að ræða tugmilljónir heldur tugmilljarða.

En vinstri flokkarnir eru sjúklega fastheldnir á óþarfann. Þegar Katrín Jakobsdóttir varð menntamálaráðherra lét hún verða sitt fyrsta verk að fjölga listamannalaunum um 30. Hún stóð andspænis mörgum valkostum en aðeins einn af þeim var réttur: að  afnema listamannalaun með öllu í fimm ár meðan þjóðin er að rétta úr kútnum.

Ég hef sjálfur slysast inn á listaverkasýningar á umliðnum árum og jafnan gengið beygður út. Þar getur að líta notaða smokka í sultukrukkum eða fólk að míga hvert yfir annað. Fyrir örfáum vikum var sýndur í sjónvarpi afrakstur árs vinnu borgarlistamanns Reykjavíkur. Afraksturinn var gínur sem hún lét kaupa frá Ameríku og klæddi í einhverjar dulur. Spott er þetta og spé, en list er það ekki.

Öllum er vitaskuld frjálst að reiða úr eigin vasa fjármuni fyrir slíka gjörninga en það er ekkert annað en rán og þjófnaður úr vösum skattgreiðenda að halda þessari lágkúru gangandi ár eftir ár með valdboði Katrínar Jakobsdóttur.

Heiðarlegt, harðduglegt fólk er svipt atvinnu sinni um land allt, þjónusta er skorin niður í heilbrigðiskerfinu, þrengt er að menntakerfinu, alþýðan sveltur - en fjármunum er ausið í lágkúru sem er ekkert annað en móðgun við menninguna.


mbl.is Varnarmálastofnun lögð niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á litlu dömuna?

Hverra manna skyldi þessa litla stúlka vera? Það kom fram í fréttum á sínum tíma að móðir hennar hafi harðneitað DNA-rannsókn til að skera úr um hvort Bobby hafi á einhvern hátt hjálpað til þess að búa hana til. Það eru engar líkur til þess að hún sé dóttir hans. En Bobby lét eftir sig mikil auðæfi og helst til margir hafa gert sig að öpum vegna þeirra, þar á meðal nokkrir kunnir Íslendingar.
mbl.is Dóttir Bobby Fischers stödd á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarþungt kjaftshögg fyrir íhaldið

Þessi könnun er ekkert minna en gríðarþungt kjaftshögg fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Við sitjum nú uppi með verstu ríkisstjórn mannkynssögunnar, drukkna þingmenn og þöngulhausa í ráðherrastólum, en stjórnarflokkarnir halda samt fylgi sínu.

Það er óþjált í munni að kalla þau Steingrím og Jóhönnu landráðamenn, en sú ákvörðun þeirra að drepa niður allt þjóðlíf til að fullnægja útlendum frekjudollum og neyða Ísland til að borga æðisgengnar fjárhæðir sem okkur ber engin skylda til að greiða, er ekkert annað en landráð. Samt halda þau fylgi sínu.

Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki þverskallast lengur við því að hlusta á þennan úrskurð kjósenda. Hann þarf að ráðast í hreingerningu á heimilinu og það sem allra fyrst. Hann getur ekki borið við neinum afsökunum. Það er nú eða aldrei.

Framsóknarflokkurinn á við ýmsan innri vanda að etja, hefur mér skilist, og á þar að auki í höggi við spillingarvofuna, sem lengi hefur átt sé ylvolgt hreiður á framsóknarheimilinu - en nýr formaður flokksins er skarpskyggn maður og ég bind miklar vonir við hann. Þar fer ágætismaður og vísir að leiðtoga.

Kjaftshögg fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en að hætti okkar karlrembusvína væri kannski nær að tala um pungspark


mbl.is Litlar breytingar á fylgi flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég fyrirgef honum af fúsu hjarta

Þessi frábæri kylfingur biður um fyrirgefningu og hér með veiti ég hana af fúsu hjarta. Ungir karlmenn lenda í freistingum. Þannig hefur það ávallt verið og mun ávallt verða. Sigurverk hormónanna lætur ekki að sér hæða. Og kvenlegur yndisþokki er ekkert lamb að leika sér við.

Við sem höfum marga fjöruna sopið vitum að öllum hjónaböndum hlekkist á fyrr eða síðar. Listin er alls ekki sú að stýra hjá boðunum, því þeir leynast þar sem enginn á von á þeim. Nei, listin er að fyrirgefa.

Mér er vel við Tiger Woods því hann er flottur kylfingur, sveiflan hans er ein sú fallegasta í öllum heiminum, og hann er ungum mönnum fyrirmynd um einbeitni og sigurvilja. Nú spenni ég greipar og vona að Elín kunni listina að fyrirgefa, því leiðin til lífshamingju er vörðuð einlægum fyrirgefningum.

 


mbl.is Tiger segist hafa brugðist fjölskyldu sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrmir kemur strax á óvart

Styrmir Gunnarsson kemur strax á óvart í Umsátrinu. Ég hélt að bókin snerist um útrásarvíkingana en svo er ekki. Markmið Styrmis er ekki að gera sé mat úr allsherjar sturlun viðskiptajöfranna, heldur “að leitast við að skýra hvernig þessir atburðir gátu orðið í opnu og lýðræðislegu samfélagi án þess að spyrnt væri við fótum”.

Ég fór í kaupstað og keypti þessa bók um daginn – fyrir tilviljun einmitt á sama tíma og Styrmir spjallaði um hana í Silfri Egils – og það kemur í ljós þegar í upphafi að þessa bók verður hver einasti hugsandi maður á íslandi að lesa.

Enginn maður í öllum heiminum hefur jafn skarpa sýn á íslenska þjóðfélagið og Styrmir Gunnarsson, og enginn þekkir það betur, aflvélar þess og innbyrðis tengsl. Styrmir er þess háttar maður sem aldrei slær fram staðhæfingu án þess að færa fyrir henni gild og ótvíræð rök. Á tímum gaspraranna er svona maður ómetanlegur.  Ég er rétt byrjaður á Umsátrinu en upphafið lofar góðu.

 


Skáldablóðið freyðir í snillingnum Offara

Gráleitt er gagnsæið matta

gruggar nú ráðherra störf

Ennþá er erfitt að fatta

æsseifsins hraðkeyrslu þörf

(Snillingurinn Offari yrkir þetta í athugasemd við "Ráðherrablók í hriplekum manndrápsbolla")


mbl.is Umræða um Icesave hafin aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrablók í hriplekum manndrápsbolla

Steingrímur er kominn út á rúmsjó í hriplekum manndrápsbolla. Hann langar til þess að róa í land en hann er búinn að týna báðum árunum.

Sterkir stjórnmálamenn gæta tungu sinnar en Steingrímur gasprar eins og málóða kaffikelling. Það gafst honum vel þegar hann var í stjórnarandstöðu, æddi daglega upp í pontu og ruddi úr sér óhroðanum. Nú horfir öðru vísi við. Menn leggja við hlustir þegar fjármálaráðherra landsins talar. Menn reyna að skilja hvað hann er að fara og þegar það rennur upp fyrir áheyrendum að hann er bara að gaspra út í loftið, þá glatar hann virðingu sinni.

Nú freistar hann þess að snúa út úr og tala sig frá klúðrinu með bjánalegu flissi, útúrsnúningum og hálfkæringi, en það er of gegnsætt, of billegt og manndrápsbollinn er byrjaður að sökkva.


mbl.is Yndislega ótrúlega ómerkilegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brostinn eða sprottinn fólksflótti?

Þótt Steingrímur sé vissulega gerónýtur leiðtogi í ríkisstjórn þá er hann vel mæltur á íslenska tungu og sennilega blundar í honum undir niðri efni í þjóðhollan Íslending - og það er alveg útilokað að hann hafi látið sér um varir líða aðra eins ambögu:

"Ísland er ekki að komast í greiðsluþrot og það er ekki sprottinn á fólksflótti".


mbl.is Hagstæðustu kjör sem fást
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirlitleg atlaga feminista

Það er alltaf gaman að fylgjast með velgengni Íslendinga á erlendri grund og Ásdís Rán hefur víða farið um heimsbyggðina og aukið hróður lands og þjóðar með fegurð sinni. Það er því miður alveg óumflýjanlegt að velgengni af þessu tæi vekur öfund og á bloggsíðu Ásdísar mátti iðulega lesa geðillskufull hnýfilyrði kvenna sem ekki eru jafn fagurlega af Guði gerðar.

Það er nokkuð ljóst hvað gerst hefur á facebook. Hópar öfundsjúkra feminista hefur tekið höndum saman um að lækka rostann í fegurðardísinni. Ekki hef ég trú á því að jafn ómerkileg atlaga valdi Ásdísi nokkrum hnekki en feministarnir baka sér verðskuldaða fyrirlitningu.


mbl.is Ásdísi Rán hent út af Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Baldur Hermannsson

Höfundur

Baldur Hermannsson
Baldur Hermannsson

Meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér. (Ibsen, lauslega snarað)

 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband