Færsluflokkur: Dægurmál

Tími Péturs er loksins kominn

Pétur Blöndal hælir vinstri óstjórninni fyrir að tefja ekki lengur framkvæmdir sem fyrri ríkisstjórn kom á koppinn. Það felst töluverð hæðni í þessu hrósi en ég efast um að vinstri menn hafi áttað sig á því. Þeir eru almennt of þröngsýnir og vitlausir til að skilja svona bellibrögð.  Vinstri menn eru að basla við að stjórna landinu en allt fer í handaskolum hjá þeim - nema þegar Sjálfstæðismenn koma þeim til aðstoðar í þingnefndum og þoka frumvörpum til betri vegar.

Auðvitað var það rétt hjá Pétri að stíga í pontu og hæla kommunum fyrir að skemma þetta mál ekki meir en þeir hafa þegar gert. Og Pétur á sjálfur hrós skilið fyrir að hafa svo oftlega stigið í pontu og sagt það sem aðra skorti þor eða þekkingu til að segja.

Nú er Bjarni Ben að boða nýja heimilishætti í Sjálfstæðisflokknum. Góð byrjun væri að gefa Pétri Blöndal stærra hlutverk en hann hefur fengið fram að þessu. Pétur er bæði greindur, menntaður og frumlegur og þótt þessir eiginleikar fari ekki alltaf vel í sjálfstæðismenn held ég að nú sé tími Péturs loksins kominn.


mbl.is Pétur hrósaði ríkisstjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullur kommi er góður kommi

Vestanhafs sögðu menn í gamla daga: dauður indíáni er góður indíáni. Íslendingar geta sagt: fullur kommúnisti er góður kommúnisti. Miðað við öll axarsköftin sem þetta óþolandi og óalandi kommapakk gerir á hverjum degi finnst mér illskárra að hugsa til þess að þeir séu þó að minnsta kosti fullir við stjórnvölinn. Maður getur þá huggað sig við að þeir skáni ef einhvern tíma rennur af þeim.

Nú vill svo til að sjálfur neyti ég ekki áfengis. Það vil ég strax taka fram. Fæ mér staup á nýársnótt og annað staup ef ég er í suðurlöndum þar sem þjónninn ber mér gröppu á kostnað hússins - það væri dónaskapur að afþakka og ég er enginn dóni. En áfengisneysla getur þetta varla talist.

En mér hrýs satt að segja hugur við þessum fréttaflutningi af Ögmundi Jónassyni. Hvað heldur Sigmar Guðmundsson að hann sé - Big Brother? Það er ekki bannað að neyta áfengis á Íslandi þegar menn eru orðnir átján ára og Ögmundur er þrisvar sinnum átján ára. Vilji hann hressa gamla kommahjartað með rússneskum vodka þá má hann það og verði honum að góðu.

Sigmundur Ernir varð sjálfum sér og Alþingi til háborinnar skammar þegar hann rigsaði um sali Alþingis draugfullur, æddi upp í pontu og hnitaði hringa eins og gamall róni. Fleiri kommar hafa orðið sér til skammar með víni og mætt í útvarpsviðtöl svo útúrdrukknir að þeir gátu varla talað. Þetta hef ég heyrt með eigin eyrum.

En Ögmundur varð sér ekki til skammar nema síður sé. Hann hafnaði viðtali vegna þess að hann hafði neytt áfengis. Það var drengilega gert og það er fréttastofunni til skammar að gera því skóna að um hneykslismál sé að ræða. Útvarpsstjóri verður að biðja Ögmund og alþjóð afsökunar á þessum kjafthætti.

 


Skörungur með eistu eða eggjastokka

Nú vantar okkur Gaflarana skörung sem gæti dröslað okkur upp úr því óráðsíu feni sem kommarnir eru búnir að koma okkur út í. Það er algilt náttúrulögmál að vinstri menn kunna ekki að fara með peninga. Gerið samfylkingarmann að bankamálaráðherra og bankakerfið hrynur eins og spilaborg. Gerið samfylkingarmann að bæjarstjóra og bæjarfélagið fer á hausinn.

Hafnarfjörður er nánast gjaldþrota eftir langa óstjórn vinstri manna. Stundum hafa Sjálfstæðismenn komist í stjórn og þá hefur bærinn braggast um stund. Svo sækir aftur í sama farið. Nú er Hafnarfjörður kominn á sama stað og Álftanes. Ekkert getur bjargað okkur nema skörungur. Rósa Guðbjartsdóttir er ekki þessi skörungur. Hún er búin að basla í bæjarstjórninni en hefur ekki haft erindi sem erfiði. Hennar tími var ekki góður og nú er hann liðinn. Viturlegast væri að stíga pent til hliðar og hleypa nýju fólki í efstu sætin.

Þótt Rósa hafi vonandi vit á því að víkja er ekki nóg að einhver mélkisan komi í staðinn. Okkur vantar skörung, mann sem er fullur af atorku, framsýni, gáfum og myndugleik. Mér stendur hjartanlega á sama hvað dinglar á milli læranna á honum - eistu eða eggjastokkar, mér er slétt sama. En skörungur verður hann að vera, annars fer ég í golf á kjördag og læt íhaldið deyja drottni sínum.


mbl.is Rósa gefur kost á sér í 1. sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hífum okkur upp á hárinu

Hvernig í ósköpunum átti það líka að geta staðist að jafn háttsettur maður og ráðuneytisstjórinn vissi ekki um þær blikur sem voru á himni fjármálanna? Við hér bloggverjar sem tilheyrum hinum sauðsvarta almúga vissum ekki nokkurn skapaðan hlut. Við uggðum ekki að okkur. Morgunblaðið birti að vísu viðvaranir útlendra sérfræðinga sem töldu að íslenska bankakerfið stæði á brauðfótum, en okkar eigin sérfræðingar risu upp við dogg og sögðu það helberan þvætting, sem stafaði af öfund og vanþekkingu. Jafnvel viðskiptaráðherrann, Björgvin Sigurðsson, staðfesti að þessar viðvaranir væru hjáróma orðagjálfur útlendinga sem ekkert vissu. Og við trúðum okkar mönnum betur en útlendingunum.

En innan bankanna vissu menn betur. Allt kemur þetta skýrt fram í Umsátrinu eftir Styrmi Gunnarsson. Bankastjórarnir sátu neyðarfund heima hjá Davíð Oddssyni. Ári fyrir hrunið sagði Davíð á fundi Viðskiptaráðs að bankarnir væru komnir að þolmörkum sínum.

Baldur Guðlaugsson gat ekki annað en vitað að nú féllu öll vötn til Dýrafjarðar. Og hvernig gat hann þá annað en reynt að bjarga sínum eigin eignum. Er einhver meðal vor sem hefði ekki gert það?

Kvörn réttlætisins mun mala í þessu máli eins og hún gerir alltaf á Íslandi, seint og illa, en mikilvægast er að draga réttan lærdóm af málinu og það strax.

Það hreinlega gengur ekki lengur að jafn hátt settir menn í okkar smáa embættiskerfi ráðskist með sína eigin fjármuni eins og ráðuneytisstjórinn gerði. Það hefur komið fram að Bandaríkjamenn skikki þá til að fela auðæfi sín í hendur sérstökum sjóðum, einskonar fjárhaldsmönnum, sem ráðstafa þeim meðan þeir gegna þessum háu embættum.

Það er spurning hvort þingmenn og ráðherrar ættu ekki að hlíta sömu reglum. Bæði Halldór Ásgrímsson og Bjarni Benediktsson eru miklir eignamenn og báðir hafa orðið fyrir rætnu aðkasti vegna meintra umsvifa í fjármálum. Stjórnmálamenn eiga að vera hafnir yfir allan vafa. Þingmenn og ráðherrar ættu að afhenda sérstökum sjóðum auðæfi sín í hendur meðan þeir vasast í í pólitíkinni.

Það er auðvitað algert smámál hvort Baldur Guðlaugsson fær dóm eða ekki. Hitt skiptir öllu máli að við reynum sem íslensk þjóð að hífa okkur upp á hárinu úr þessum eilífa forarpytti óeðlilegrar hagsmunagæslu, spillingar, tortryggni og grunsemda sem við höfum legið í helst til lengi.


mbl.is „Baldur staðinn að ósannindum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynir pönkast á Bjarna Ben

Reyni Traustasyni finnst skemmtilegt að pönkast á mönnum. Hann pönkaðist á Björgólfi og hældist mjög af pönkinu. Nú pönkast hann í gríð og erg á Bjarna Ben. Bjarni kveinkar sér undan pönkinu og hringir í Hrein Loftsson. Svo vill til að Hreinn er gamall fallisti úr prófkjörsbaráttu í Sjálfstæðisflokknum. Hreinn bregst við fúlmannlega, kallar Bjarna símadóna og skellir á hann. Reynir Traustason æsist allur og heldur áfram að pönkast á Bjarna.

Sakargiftir á hendur Bjarna eru raunar engar. Hann á hlut í fyrirtæki sem á hlut í öðru fyrirtæki og það fyrirtæki var eitthvað að braska úti í heimi. Það er bara eins og gengur. Bjarni kom hvergi að þessu máli. Hans eina aðild er sú að hann á hlut í fyrsta fyrirtækinu, sem á síðan hlut í hinu sem fór að braska.

Samt heldur Reynir áfram að pönkast. Hann lætur í veðri vaka að Bjarni Ben sé stórglæpamaður að eiga hlut í fyrirtæki. DV makar drullunni á Bjarna. Við sem heima sitjum veltum því fyrir okkur hvort allur þessi drullumokstur skipti einhverju máli.

Því er til að svara: já, hann skiptir máli. Þegar drullu er makað á menn er óhjákvæmilegt að eitthvað loði við þá. Að vísu loðir meira við drullumokarann sjálfan en hann á heima í drullupyttinum og líður vel í honum.

Við skulum bara átta okkur strax á því að rógurinn bítur alltaf. Rógurinn hefur þegar bitið Bjarna Ben og mun halda áfram að gera það.  Það var óskiljanlegt fljótræði að hringja í Hrein Loftsson, manninn með 300 milljónirnar, manninn sem löngu hefur sagt skilið við siðaðra manna samfélag.

Bjarni Benediktsson er heiðarlegur maður, stálgreindur, vandaður og vel upp alinn - í einu orði sagt: drengur góður. Hann mun standa af sér rógsherferðina en  sá sigur verður honum dýrkeyptur.


Seðlabankinn gerði skyldu sína

Í Umsátrinu eftir Styrmi Gunnarsson kemur skýrt fram að þegar árið 2006 var íslenskum bankamönnum ljóst að þeir voru komnir út í kviksyndi. Bankarnir brugðust við með ýmsum hætti. Þeir endurskipulögðu fjármálastöðu sína og reyndu eftir megni að beita upp í vindinn. Seðlabankinn, ríkisstjórnin og fleiri aðilar komu að því máli. Seðlabankinn gerði skyldu sína gagnvart þeim, en því voru takmörk sett hve langt hann gat seilst því velta bankanna var orðin margföld þjóðarframleiðsla.

Þegar að því rak að Glitnir gæfi upp andann sóttu stjórnendur hans fast að Seðlabankanum og vildu mörg hundruð milljarða króna lán, sem þó hefði aðeins dugað þeim í þrjá mánuði. Þeir urðu fúlir þegar beiðni þeirra var hafnað og eimir enn eftir af þeirri fýlu.

Seðlabankinn gerði það sem hann gat til að halda bönkunum á floti. Hvað hefði gerst ef hann hefði skellt á þá símanum löngu fyrr að hætti Hreins Loftssonar? Þeir hefðu trúlega fallið hver um annan þveran og þá þarf nú vart um að deila hverjum hefði verið kennt um.


mbl.is Afdrifarík mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinsæl ráðstöfun, vitlaus og siðlaus

Þessi ráðstöfun verður vinsæl meðal almennings en vitlaus er hún og siðlaus. Edda Heiðrún hefur aldrei unnið nein teljandi afrek sem listamaður. Hún hefur ekkert gert til að verðskulda heiðurslaun listamanna. Hins vegar hefur almenningur fylgst með baráttu hennar við erfiðan sjúkdóm um langt árabil. Hún hefur réttilega unnið sér ríka samúð almennings og út á þá samúð eru heiðurslaunin veitt.

Þór Saari hefur gert úthlutanir fjárlaganefndar að umtalsefni. Hann bendir réttilega á að upp til hópa eru þessi gífurlegu fjárútlát ekki annað en auvirðilegt kjördæmapot og dæmigerð pólitísk spilling. Háttsettur embættismaður íslenska ríkisins greindi mér frá því fyrir örfáum dögum hvernig fjármunum almennings er iðulega varið. Styrkjum er úthlutað út og suður án faglegra verðleika, en ákvörðun látin ráðast af algerlega óviðkomandi þáttum.

Heiðurslaun listamanna er enn eitt dæmið um siðlaust bruðl með almannafé. Til eru listamenn sem eiga þau verðlaun skilið en þeir eru fáir. Þráinn Bertelsson fékk þessi verðlaun á einskærum pólitískum forsendum. Við Íslendingar verðum að brjótast út úr þessum ógeðfelldu viðjum fyrirgreiðslu, kjördæmapots, samkrulls og spillingar.

Fyrir ári síðan var mikið fjallað um Nýja Ísland. Nýja Ísland, hvenær kemur þú?


mbl.is Edda Heiðrún fær listamannalaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Braskari knésetur meistara

Jón Ólafsson braskari lýsti yfir styrjöld á hendur meistara Hannesi Hólmsteini af litlu tilefni. Jón lét kné fylgja kviði, stefndi Hannesi fyrir breskan rétt, en þar í landi getur enginn lagt í réttarhöld nema hann sé milljarðamæringur. Þessi viðureign gat aðeins endað á einn veg. Braskarinn hrósar sigri en meistarinn er flúinn til Suður-Ameríku.

Hannes vann sér til saka að hafa tekið upp gamla frétt úr íslensku blaði á vefsíðu sína og snarað á ensku. Ekki veit ég hvort Jón dró nokkurn tíma brigður á inntak fréttarinnar. Það er stórundarlegt að Hannes skyldi verða dæmdur en svona er veröldin. Réttarhöldin gerðu Hannes að öreiga en orðstír braskarans hefur ekki lagast. Þetta var að vísu ferð til fjár fyrir Jón Ólafsson en sæmd hans óx ekki að sama skapi.

Bretar kalla fátt ömmu sína en jafnvel þeim ofbuðu þessar aðfarir. Þeir ætla að breyta lögum til þess að þessi ljóti leikur endurtaki sig ekki. Bretum er ljóst að þótt dómurinn sé vafalaust samkvæmt lögum, þá er hann ekki réttlátur.

Nú situr Hannes einhvers staðar á kaffihúsi í Suður-Ameríku og bloggar, staurblankur maðurinn. Jón Ólafsson hvimar augum um hillur og snaga og skugginn yfir höfði hans hefur dýpkað til muna.


mbl.is Enskum meiðyrðalögum breytt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin eina sanna kona ársins er:

Sama er mér þótt gárungar útnefni kerlingarkrákuna, því allir vita að það eru háðungarverðlaun. Hin eina sanna kona ársins er auðvitað hin undurfagra Elin Nordegren sem stendur með eiginmanni sínum þegar hann á undir kylfuhögg að sækja.
mbl.is Jóhanna valin kona ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirlitnasti maður landsins í dag

Ólafur Ragnar Grímsson er líklega fyrirlitnasti maður landsins í dag. Takmarkalaus sjálfhverfa, athyglissýki í hæstu hæðum, drýldni og dómgreindarleysi - það er svo vont þegar allir þessir eiginleikar hittast í einum og sama manninum.

Forfeður okkar stofnuðu til þessa embættis svo þjóðin mætti eiga sér sameiningartákn, göfugan mann sem væri einskonar holdgervingur þjóðarviljans. Kristján Eldjárn er eini forsetinn sem hefur komist nálægt þessari fallegu hugsjón. Ég sá einu sinni Kristján Eldjárn álengdar. Hann var að koma út úr Gamla bíói. Það stafaði af honum fögrum virðuleik. Við horfðumst í augu og mér fannst hann vera vinur minn. Síðan hefur mér þótt vænt um Kristján Eldjárn.

Sá sem ekki veldur embætti forseta Íslands dregur virðingu þess í svaðið. Hann skemmir einhvern innsta kjarna sem var okkur heilög gersemi. Það hefur Ólafur Ragnar Grímsson gert svo um munar. Hann getur lagað eitthvað fyrir sér með því að synja þessum ólögum staðfestingar.

Því miður er það staðreynd að íslenska þjóðin steypti sér sjálf í það hyldýpi sem við dúsum í núna. Og það er líka gallsúr staðreynd að íslenska þjóðin kaus á sínum tíma þennan skelfilega forseta á Bessastaði.


mbl.is Skýr vilji þjóðarinnar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Baldur Hermannsson

Höfundur

Baldur Hermannsson
Baldur Hermannsson

Meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér. (Ibsen, lauslega snarað)

 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband