Færsluflokkur: Dægurmál

Lögleiðum vændi og losnum við dólgana

Hvernig væri nú að ráðamenn hegðuðu sér einu sinni eins og fullorðið fólk og horfðust andartak í auga við alþekkta staðreynd: vændi er fullkomlega eðlileg og sjálfssögð atvinnugrein, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Það verður alltaf ófriður kringum vændi, lögleysur, glæpir og hvers kyns þján þangað til menn viðurkenna staðreyndir og lögleiða vændishús. Best væri að hafa vændishúsin undir ströngu, opinberu eftirliti og jafnvel hafa þau ríkisrekin.

Fjöldi kvenna á öllum tímum í öllum heimshornum vilja stunda vændi vegna þess að það færir þeim skjótfenginn gróða. Það þarf enga nauðung til, þær vilja þetta sjálfar. Þannig hefur þetta alltaf verið og þannig mun það ávallt verða. Og ekki vantar kynsvelta karlmenn sem tilbúnir eru að borga fyrir greiðann. Lauslæti íslenskra kvenna er frægt að endemum um alla heimsbyggðina, það er ekki til svo hlægilega afskekkt horn heimsins að menn hafi ekki heyrt um lauslæti fósturlandsins freyju - og hvers vegna skyldu þær ekki taka gjald fyrir ef þeim sýnist?

Ég man þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vildi í gamla daga lögleiða vændi til þess að vernda stelpurnar sem í þessu standa. Það var vel hugsað og skynsamlegt hjá Ingibjörgu.

Við myndum losna við margan viðbjóðinn og ofbeldið ef við leyfðum konum að selja blíðu sína og veittum þeim vernd gegn dólgum og hrottum sem fýsir að beita þær ofríki og hagnast á þeim.

 


mbl.is Tilkynningum um vændi hefur fjölgað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungu formennirnir sigla háan byr

Ungu formennirnir sigla háan byr um þessar mundir, Bjarni Ben og Sigmundur. Gamlingjarnir dala og skríllinn af Austurvelli gufar upp. Allt er eins og það á að vera. Þjóðin er að ná áttum.

Ég hef oft bent á hve skemmtilega beinskeyttur Sigmundur Davíð er, og með honum hafa Framsóknarmenn eignast foringja sem er bæði gáfaður, menntaður og vel máli farinn. Hann er líka ferskur í hugsun, kemur oft að málum úr óvæntri átt og þegar hann tekur þátt í umræðunni verður hún fjörlegri og fjölbreyttari. Það er fengur að slíkum mönnum, hvar í flokki sem þeir standa.

Bjarni Ben ber höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálamenn hvað málflutning varðar. Hann hefur langa og mikla reynslu af atvinnulífinu og veit nákvæmlega hvers þarf við í þeim efnum. Hann hefur líka skýra sýn á heildarmynd þjóðlífsins, kemur auga á farsælar leiðir og hefur hæfileika til þess að kynna þær þannig að allir skilji. Það kæmi mér ekki á óvart þótt þessir eiginleikar ættu eftir að vaxa og þá mun bæði honum og Sjálfstæðisflokknum vaxa ásmegin með degi hverjum.

Það er óhjákvæmilegt að bera vinstri hjúin Jóhönnu og Steingrím saman við ungu formennina. Sá samanburður er ekki hagstæður fyrir þau. Fúlmennska, pukur og dylgjur eru einu vopn Jóhönnu og þótt Steingrímur mæli oft vasklega hefur hann enga sýn á framtíðina, skilur ekki vélarafl samfélagsins og fyrir vikið eru allar hans tiltektir dæmdar til að mistakast. Hann er eins og gamall fauti, órakaður og óþveginn, og þótt hann kunni eitt og annað fyrir sér í götuslagsmálum er hann ófær um að stýra vegferð heillar þjóðar.

Vinstri grænir neyðast til að endurnýja í forystunni og sama gildir um Samfylkinguna.


mbl.is Ríkisstjórnin rétt héldi velli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin þarf að losna við þjóðkirkjuna

Þetta heitir að þekkja ekki sinn vitjunartíma. Selfyssingar vilja ekki Gunnar Björnsson. Hann verður að sýna þeim lágmarks virðingu og láta sig hverfa. Það gerir hann ekki, heldur lemur höfðinu í steininn í von um að steinninn brotni á undan hausnum.

Samkvæmt fréttum ætla 10 þjóðkirkjuprestar að halda stuðningsfund fyrir Gunnar annað kvöld. Þessir menn þekkja ekki heldur sinn vitjunartíma. Nú þarf þjóðin að losna við þjóðkirkjuna. Eignum hennar ber að skipta upp á milli kristinna trúfélaga í landinu.


mbl.is Hyggst hafa boðskap biskups að engu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðkirkjan er úrelt

Leiðinlegt fyrir karlskömmina, því víst er þetta ágætis náungi, en það var ekki um neitt annað að ræða og hann getur sjálfum sér um kennt. Gunnar er listamaður, skemmtilegur gaur og kvæntur aðsópsmikilli sómakonu. Nú er að vona að honum nýtist veganestið til þess að láta gott af sér leiða svo björtu hliðarnar lifi í minningunni en smánarblettirnir gleymist.

Þessar eilífu uppákomur í þjóðkirkjunni eru auðvitað orðnar algerlega óþolandi. Ég hef verið fremur andvígur aðskilnaði ríkis og kirkju en það er kominn tími til þess að greina sundur pólitík og trúmál. Þjóðkirkjan er úrelt fyrirbæri.


mbl.is Gunnar til Biskupsstofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún þykir vænsta kona

Kristín er vænsta kona og vel gift, en óttalega hljóp hún á sig þegar hún kvaðst ætla að koma Háskólanum í hóp hundrað bestu háskóla í heimi. Full mikill útrásarbragur á slíkum fyrirheitum. En samkvæmt mínum heimildum er Háskóli Íslands langfremstur allra háskólastofnana á Íslandi og við skulum efla hann og styðja.

Útlendur sérfræðingur sem hingað var fenginn til þess að meta skólana, sýndi fram á að hér væru alltof margar stofnanir sem kenna sig við háskólastig. Reyndar er það svo - og á það hefur verið bent - að margt af því sem kennt er í háskólum hér á landi er alls ekki á háskólastigi. Þessa sýndarmennsku þarf að skera niður og það sem fyrst. Röskleg tiltekt í skólakerfinu gæti sparað okkur milljarða.


mbl.is Rektor HÍ býður sig fram aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við erum holdsveiki maðurinn

Við erum holdsveiki maðurinn á Norður-Atlantshafi. Enginn vill nálgast okkur og enginn vil snerta okkur. Við höfum aðeins okkur sjálf til að treysta á. Rússar eru ekki aflögufærir. Þeir voru með vinstri stjórn um áratuga skeið og hafa ekki enn þá rétt úr kútnum. Við höfum sjálfir vinstri stjórn og við verðum líka lengi að rétta úr kútnum. Við verðum að haga okkur eins og þjóð í stríði - fyrsta verk okkar á að vera að velja mikilhæfan foringja. Oss duga skammt þau dusilmenni sem nú sitja og drekka kók í stjórnarráðinu.
mbl.is Rússar hafna láni til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einn ljósgeislinn í vinstra myrkrinu

Þarna er enn einn ljósgeislinn í því vinstra myrkri sem grúfir yfir litlu þjóðinni okkar. Ung, falleg, vel menntuð og glæsileg kona ætlar að stjórna kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á vori komanda. Ég sé margan vorboðann fyrir Sjálfstæðisflokkinn um þessar mundir. Samband ungra sjálfstæðismanna hefur nýlega eignast öflugan fyrirliða, tveggja metra manninn Ólaf Örn Nielsen sem dræfar golfboltum lengra en aðrir menn þegar sá gállinn er á honum, og þekki ég þann kappa rétt verður þess ekki langt að bíða að ungliðar leggist í víkingu og endurheimti þau lönd sem eldri mennirnir hafa glatað.

Auðvitað er alltof snemmt að spá nokkrum sköpuðum hlut - en við getum þó vonað að þessir vorboðar séu til marks um að nýtt fólk, vel menntað og duglegt, sé í þann mund að taka yfir Sjálfstæðisflokkinn og leiða okkur út úr svartnætti vinstrimennskunnar, þangað sem þessi þjóð á heima.


mbl.is Ráðin kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðlendingar sleikja náfroðuna af Skarpi

Þetta eru hundleiðinleg tíðindi og heldur hefði ég viljað heyra af dauða Fréttablaðsins en afdrifum Skarps sáluga. Það er nú þannig með hann Jóhannes Sigurjónsson ritstjóra að hann er afburða skemmtilegur penni, fluggáfaður, fyndinn á svona vingjarnlega danska vísu og hefur næmt auga fyrir öllu sem á leið hans verður. Svona maður er alveg ómetanlegur í sínu litla horni heimsins, hann einn er þar meira virði en presturinn, sýslumaðurinn og hreppstjórinn allir til samans, og vita þó allir sem einhvern tíma hafa migið til sveita að þetta eru helstu höfðingjarnir í héraði.

Tekst Jóhannesi að sleikja náfroðuna af Skarpi og kalla hann svo aftur til lífsins? Það ætla ég rétt að vona að allir Norðlendingar leggist nú á eina sveif - þótt æskilegt sé að bjarga frystihúsum og gróðurhúsum undan kreppukrumlunni, þá eru þó andlegu verðmætin miklu dýrmætari.


mbl.is Prentsmiðja lokar og vikublað hættir útgáfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðsælt er í Eyjum

Þetta hefur örugglega verið aðkomumaður. Vestmannaeyingar eru ljúfir heim að sækja og þar er hægt að rölta um stræti að næturlagi og vera þó jafn óhultur og heima hjá sér. Viðmótsþýðir eru þeir og háttvísir, greiðviknir og vilja allt fyrir alla gera. Þannig er bara mórallinn í Eyjum. Þar er líka matsölustaður sem ég man ekki hvað heitir, með góða rétti og góða þjónustu á hóflegu verði. Þar er líka einn skemmtilegasti golfvöllur landsins.

Þó er enn ótalinn stærsti kostur Vestmannaeyja, því ferðalag þangað með Herjólfi jafngildir utanlandsferð. Bærinn og umhverfið er svo sérstakt að manni líður eins og í útlöndum. Ekki hafði ég efni á utanlandsferð á liðnu sumri, en ég bara sigldi með minni spúsu til Eyja og tókum þar tvo netta hringi á vellinum góða.

Fagurt er í Eyjum.

 


mbl.is Ógnaði með hnífi og golfkylfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin bruggar í kreppunni lystilega

Þegar verðlag á víni rýkur upp úr öllu valdi fara reyndir menn á stúfana og leggja í kút. Það er til skammar hvað Íslendingar eru lélegir að brugga. Hjá nágrönnum okkar þykir sjálfsagður liður í búskapnum að brugga. Sumir lesa sér til og brugga gómsæt vín úr alls konar jurtum. Þetta er þjóðlegt og sparar feiknin öll af gjaldeyri. Það eru ekki nema afglapar sem amast við bruggi til heimilisnota.

Ef menn eru hneigðir fyrir sterka drykki er líka hægurinn hjá að eima. Eiming er furðulega auðveld og það er gaman að eima. Gleymi seint þegar við strákarnir vorum að eima og settum alltaf glösin beint undir bununa. Það var eins og að svolgra mjólkina beint úr blessaðri kúnni nema hvað áhrifin voru önnur. Ef bruggið er görótt er viturlegast að eima. Svo má líka bragðbæta með ýmiskonar eðaljurtum og þá eru menn komnir með gómsæta drykki sem gleðja mann og annan.

 


mbl.is Sala á áfengi minnkar um 14%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Baldur Hermannsson

Höfundur

Baldur Hermannsson
Baldur Hermannsson

Meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér. (Ibsen, lauslega snarað)

 

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband