Færsluflokkur: Dægurmál

Siðleysi og grimmd bankastarfsmanna

Þetta er óhugnanleg frásögn. Siðleysi og grimmd bankastarfsmanna er með ólíkindum. Ég hef áður greint frá því þegar starfsmaður Kaupþings hringdi heim til mín í tvígang og reyndi að svíkja til sín sparifé konu minnar. Sem betur fer er hún Jóna mín klókari en ég. Ég hneigist alltaf til þess að trúa fólki nema það sé vinstri sinnað, þá veit ég auðvitað  að það er ginkeypt fyrir lygum og  þvælu og er á verði. En Jóna lítur á bankamenn sem glæpalýð og hunsaði gylliboðin, sem vitaskuld reyndust fals og fláræði.

Páll Vilhjálmsson, sem er einn af bestu bloggurum landsins, er með stutta lýsingu á kattarþvotti Fréttablaðsins í dag. Það margborgar sig að fylgjast grannt með bloggsíðu Páls Vilhjálmssonar. Hann segir:

"Ef Fréttablaðið væri eitt um að segja frá hrunskýrslunni myndu lesendur halda að bankakreppan væri vegna stjórnvalda."

Sjá nánar blogg Páls.


mbl.is Reynt að blekkja viðskiptavini bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allsbera greppitrýnið steypti okkur í glötun

Lang skynsamlegasta leiðin á þessari ögurstundu Íslandssögunnar var sú að mynda þjóðstjórn og það strax. Og það kom enginn til greina sem foringi hennar annar en skörungurinn Davíð Oddsson. En allsbera greppitrýnið mátti ekki til þess hugsa að glata völdum sínum og því fór sem fór.

Hefði Össur ekki komið í veg fyrir þjóðstjórn væri hagur Íslands allur annar núna. Skörungurinn Davíð hefði hafnað frekjuganginum í Bretum og haft innantómar hótanir þeirra að engu. Icesave-málið hefði kafnað í fæðingu. En Geir Haarde og Solla voru skelkuð og slógu undan til þess að kaupa sér frið og einnig til þess að fá gott veður hjá Evrópusambandinu.Davíð Oddsson hefði líka tekið á bönkunum með harðri hendi og ekki látið skilanefndirnar vaða uppi eins og náhirð Jóhönnu hefur gert með skelfilegum afleiðingum.

Hrunið var áfall en viðbrögð stjórnmálamanna hafa gert illt verra og raunar margfaldað skaðann. Verstur er þó hlutur Össurar því hann kom í veg fyrir að við færum bestu leiðina sem okkur stóð til boða. Allsbera greppitrýnið steypti okkur öllum í glötun.


mbl.is „Valdarán Davíðs Oddssonar"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðanefndarkelling stígur ekki í vitið

Þetta er eflaust rétt með farið hjá Davíð Oddssyni en ég myndi nú ekki dæma þessa tvo nefndarmenn úr leik af þeim sökum sem hann tilgreinir. Best hefði auðvitað verið að velja fólk í nefndina sem hafið væri yfir allan vafa, og væntanlega muna flestir eftir uppnáminu sem varð innan nefndarinnar strax í upphafi, þegar kvennnablóminn í henni sleppti fram af sér beislinu og tók til að dæma fólk að órannsökuðu máli.

Mér finnst þó sýnu verra að Kristín Ástgeirsdóttir skyldi skipuð í siðanefndina sem einnig fjallar um hrunið. Kristín er harðsnúin stjórnmálarotta af gamla skólanum og einn nánasti samherji Ingibjargar Sólrúnar. Þetta eitt er nóg til þess að tortryggja allar ályktanir siðanefndarinnar.

Mér til ómældrar skemmtunar var Kristín rétt í þessu í viðtali í sjónvarpinu og hafði þar mörg orð um hve ótækt það væri að setja stjórnmálamann í stjórn Seðlabankans, því það hlyti að kalla á óbærilega tortryggni.

Kristín Ástgeirsdóttir er þaulreynd innanbúðarkona í vinstri mafíunni en ekki stígur hún í vitið fyrst hún sér ekki að gagnrýni hennar hittir hana sjálfa harðast fyrir. 


mbl.is Davíð sagði nefndarmenn vanhæfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð hvítskúraður - nærri því

Það væri ofmælt að skýrslan mikla hvítskúri Davíð Oddsson en fréttamaður Stöðvar 2 benti réttilega á að þær aðgerðir sem hann er einkum gagnrýndur fyrir eru tímasettar þegar hrunið er byrjað.

"Rannsóknarnefnd Alþingis telur að í ljósi upplýsinga sem fram voru komnar innan Seðlabankans í ágúst 2008 um alvarlega stöðu Landsbankans og afstöðu breska fjármálaeftirlitsins til málefna bankans hafi verið nauðsynlegt að gerðar yrðu viðhlítandi ráðstafanir af hálfu bankastjórnar Seðlabankans til að ganga úr skugga um hver væri í reynd staða Landsbankans á þeim tíma m.t.t. áhrifa hennar á fjármálastöðugleika í landinu."

Og svo formsatriði sem varla hefur neinu máli skipt í ferlinu:

"Það er mat rannsóknarnefndar Alþingis að bankastjórn Seðlabanka Íslands hafi sýnt af sér vanrækslu í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 með því að hafa ekki rannsakað erindi Glitnis á viðhlítandi hátt áður en því var ráðið til lykta og að hafa ekki tilkynnt Glitni um niðurstöðu sína þegar hún lá fyrir."


Solla hneppti kjánann Björgvin í einangrun - skýrslan

Eiríkur Bergmann Einarsson hefur um árabil verið ein helsta áróðurssprauta vinstri manna og margoft farið út yfir öll velsæmismörk í árásum á Davíð Oddsson og aðra frjálslynda stjórnmálamenn á Íslandi. Þess vegna er mikill fengur að þessari frétt. Vinstri menn hafa í örvilnan sinni reynt að klína því á Davíð að hann hafi haldið kjánanum Björgvin fyrir utan alla atburðarás í sambandi við hrunið, en Eiríkur staðfestir nú að að sú einangrun sem kjánanum var gert að sæta sé alfarið á ábyrgð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

Út af fyrir sig er vel skiljanlegt að Solla hafi reynt að halda Björgvin utan við alla meiri háttar pólitíska ákvarðanatöku, því hann hafði nákvæmlega enga burði til þess að gegna störfum í ríkisstjórn og allra síst jafn mikilvægu starfi og embætti viðskiptaráðherra.

Og þetta dæmi undirstrikar enn og aftur að Samfylkingin var hreinlega ekki stjórntækur flokkur frekar en hún er núna. Mannvalið er einfaldlega alltof klént. Hún hefur ekki mannval til að skipa í embætti ráðherra. Ingibjörgu var því nokkur vorkunn. Hún hefur sjálfsagt viljað hindra að Björgvin yrði sér til skammar á mannamótum. Í raun var stjórnin því án viðskiptaráðherra og það gat aldrei endað nema illa.


mbl.is Átti að upplýsa Björgvin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi stendur eitthvað um Davíð Oddsson

Ég hlakka mikið til að lesa þessa skýrslu og vona að hún skýri nánar hvað olli bankahruninu, umfram það sem kemur fram í Umsátrinu eftir Styrmi Gunnarsson. Umsátrið er geysilega vönduð bók og alveg bráðnauðsynleg lesning öllum þeim sem vilja skilja hrunið.Ég vona líka að það standi eitthvað um kappann Davíð Oddsson, þann mikla leiðtoga okkar Íslendinga. Það var hann sem skóp það stórveldi sem hrundi og það verður fróðlegt að sjá hvaða afsakanir þeir menn, sem hunsuðu viðvaranir hans, tefla fram sér til varnar.En mikilverðast er þó að þjóðin öll dragi skynsamlegan lærdóm af þessari skýrslu. Margir bíða eftir henni til þess eins að nota hana sem hafnarboltakylfu í hausinn á næsta manni en við sem vitrari erum munum spinna úr henni samfélag framtíðarinnar.
mbl.is Mikil eftirvænting eftir skýrslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf sama karpið hjá Agli

Alltaf sama hundleiðinlega karpið hjá Agli Helgasyni. Það getur verið að einhverjum geðsjúklingum finnst þessir þættir áhugaverðir en það er útilokað að viti borið fólk hafi af þessu gagn eða gaman.

Ég hef stundum horft á kappræður frambjóðenda í bandarísku forsetakosningunum. Það eru alltaf áhugaverðar samræður, fræðandi og skemmtilegar, enda er þeim stjórnað af geysilega hæfu fólki.

Ég vonast líka til að sjá kappræður frá bresku kosningunum fljótlega. Þar munu eigast við þungaviktarmenn undir stjórn háttvísra fréttamanna sem kunna sitt fag út í ystu æsar.

Ég vonast líka til að þessum hræðilega ófyndnu útyflum á vegum Besta flokksins verði úthýst úr kappræðunum. Allt gera þessir vesalings, leiðinlegu menn til að auglýsa sjálfa sig og gera sig að söluvarningi á markaðinum.


mbl.is Heitar umræður oddvitanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vafasamt fyrirkomulag

Það er óskynsamlegt að láta fólk standa í biðröðum til að fá mat. Bæði er það auðmýkjandi og svo er vitað að margir hafa misnotað þessa styrkveitinu. Ég veit um roskinn iðnmeistara, sterkefnaðan mann sem á fjölda íbúða á höfuðborgarsvæðinu og hefur af þeim drjúgar leigutekjur - en hefur samt geð í sér til þess að sníkja mat daglega hjá tiltekinni góðgerðastofnun.

Skynsamlegra væri að hafa þurfalingana á skrá og aka matnum heim til þeirra. Það er ekki auðmýkjandi og myndi stórlega hindra alla misnotkun.


mbl.is Fjallað um íslenska fátækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömmi er ágætur

Ömmi karlinn er að mörgu leyti ágætur, í aðra röndina einsýnn og þver eins og gömul afsláttartrunta sem paufast sína leið hvað sem tautar og raular, en hann er líka skarpur maður og heiðarlegur. Fyrr á árum hafði Ömmi dálæti á breska kommaprikinu Michael Foot, sem einmitt var einsýnn, þver, skarpur maður og heiðarlegur.

Það er alveg öruggt að margir munu verða til þess að fjalla um skýrsluna af ægilegri dómhörku. Þeir munu leitast við að persónugera hrunið eins og þeim er frekast unnt. Þessir menn eru búnir að bíða skýrslunnar í ofvæni og nú vilja þeir fá eitthvað fyrir snúðinn.

Vonandi verða aðrir til þess að gera eins og ég, að skoða skýrsluna efnislega og leitast við að spinna úr henni þráð til framtíðar.


mbl.is Í skjóli leyndar þrífst spillingin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vetrarfrí hægri bullunnar

Þá er komið að vetrarfríi. Ég legg frá mér bloggpennann. Snorri Hjartarson á hug minn allan. Ég þarf að sökkva mér niður í ritverk hans og allt annað verður að víkja. Andspænis orðsnilld Snorra, þess hæverska, rammíslenska skálds, verður sérhver maður orðlaus.

Ísland er í sókn. Við munum hrinda af okkur árásum níðinganna. Við njótum samúðar heimsins. Vinir okkar munu ljá okkur lið. En við verðum að leggja eitthvað af mörkum líka - Guð hjálpar þeim sem hjálpar sér sjálfur, var amma Sigrún vön að segja.

Við verðum að fleygja Samfylkingunni úr ríkisstjórn. Það getur enginn annar gert fyrir okkur. Það er allt í lagi að leyfa VG að sitja áfram, svo fremi sem Steingrímur viðurkennir mistök sín.

Svo mælti Snorri:

En standið ei ráðlausir rændir vorhuga, sjáið

roða hækkandi sólar slá felmtri hin gráu rögn;

enn er vegljóst, vakið í garðinum, trúið

og vitið ég kem hingað aftur í friðhelgri tign.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Baldur Hermannsson

Höfundur

Baldur Hermannsson
Baldur Hermannsson

Meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér. (Ibsen, lauslega snarað)

 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband