Sjálfstæðisflokkurinn skapar auðsæld

Þetta vissu allir Hafnfirðingar fyrir fram og annað var hreinlega ekki í stöðunni. Kjósendur VG hefðu ekki tekið því með þegjandi þögn ef Rúna hefði fundið upp á því að manga til við íhaldið. Hún fer nauðug viljug í samkrull við Samfylkinguna.

Fyrir okkur Hafnfirðinga eru þessar kosningar stórt skref fram á við. Það er auðvitað slæmt að búa áfram við vinstri stjórn - sú staðreynd ein og sér gerir Hafnarfjörð að annars flokks byggðarlagi - en það er þó stórum skárra að Samfylkingin skuli ekki hafa lengur meirihluta og komast þannig upp með að ráðskast með alla hluti gagnrýnislaust. 

Það er alþekkt staðreynd að bæjarfélög sem lúta vinstri stjórn ná aldrei flugi og verða dæmd til þess að sitja föst í gildrum fátæktar og óskilvirkni. Bæjarfélög sem lúta hreinni og ómengaðri stjórn Sjálfstæðismanna verða undantekningarlaust öflugri og þar skapast auðsæld, velmegun og lífshamingja - Seltjarnarnes og Garðabær eru sem gimsteinar í höfuðborgarsorpinu, eins og allir vita.

Sjálfstæðismenn í Hafnarfirði eiga að taka stefnuna á hreinan meirihluta í næstu kosningum. Til þess þurfa þeir að tefla fram bestu frambjóðendunum og kynna stefnu sína vel meðal íbúanna. Fjárhagur Hafnarfjarðar er kominn fram á heljarbrún eftir óstjórn vinstri manna og aðeins hreinn meirihluti Sjálfstæðismanna getur skapað okkur auðsæld og öryggi til langframa. 


mbl.is Nýr meirihluti fyrir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er eins og lesa góðan brandara!:-)

Hvað með Reykjanesbæ? Mestu skuldir sveitarfélags á Íslandi? Af hverju er ekki hagsæld þar fyrir sakir meirihluta Sjálfstæðismanna þar í mörg ár? Mesta atvinnuleysi í manna minnum á svæðinu og í sögu þjóðarinnar? Afhverju? Ég nefni Akureyri líka?

Hefuru verið á landinu sl. 2 ár eða fór framhjá þér heilt hrun þar sem ráðherrar og embættismenn Sjálfstæðisflokksins báru mestu ábyrgð á? Hagsæld sem tekin er að láni, seljum frá okkur auðlindir landsins er motto XD og fólk er farið að sjá í gegnum þessa gegnsýrðu spillingu sem þessi flokkur stendur fyrir. Ég bendi á rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem ránfugl flokksins hefði átt að vera á forsíðu hvers bindis.

Frekar vil ég heiðarlega bjána en óheiðarlega bjána:-)

Hlynur Gudlaugsson (IP-tala skráð) 3.6.2010 kl. 12:37

2 Smámynd: Benedikta E

Baldur - Til hamingju með X D í Hafnarfirði - þessi kosningasigur er aðeins byrjunin á því sem verður..........!

En Samfylkingin rústar allstaðar fjármálum þar sem henni hefur verið hleypt að þeim - og ekki gera Vg. málin betri þau halda áfram vegferð Samfylkingarinnar í  Hafnarfirði og á landsvísu og þurrkast út í næstu kosningum..........!

Ef Jóhanna og Steingrímur taka ekki bara kosningaréttinn af þjóðinni - til öryggis .........!

Benedikta E, 3.6.2010 kl. 12:39

3 Smámynd: Rauða Ljónið

  Samfylkingin í Hafnarfirði hefur rústar bænum.
Fjárhagsáætlun sem samþykkt var um s.l. áramót hafi gert ráð fyrir 500 milljóna króna rekstrarafgangi en niðurstaðan nú við endurskoðaða ársreikninga hafi orðið meira en 2 milljörðum króna lakari.  Heildarskuldir Hafnarfjarðarbæjar eru nú 41,7 milljarðar króna og því nema  nú skuldir bæjarins 1,6 milljón króna á hvern bæjarbúa. Þetta þýðir að skuldabaggi bæjarins er um 9 milljónir króna á hverja fimm manna fjölskyldu.

Rauða Ljónið, 3.6.2010 kl. 12:51

4 Smámynd: Baldur Hermannsson

Hlynur, Reykjanesbær er til þess að gera nýstofnað sveitarfélag, soðið saman úr nokkrum smærri sveitarfélögum sem stóðu höllum fæti. Þú getur ekki búist við því að samruni nokkurra fátæklinga skapi auðjöfur á einu bretti. Svo máttu ekki gleyma því að svæðið missti sinn helsta atvinnuveita, herinn, fyrirvaralaust fyrir nokkrum árum. Þarna er háð hetjuleg varnarbarátta undir traustri stjórn Árna Sigfússonar. Horfðu til Garðabæjar og Seltjarnarness, þar eru fyrirmyndirnar.

Baldur Hermannsson, 3.6.2010 kl. 12:52

5 Smámynd: Baldur Hermannsson

Takk Benedikta, það er rétt hjá þér, vinstri menn rústa fjárhag hvar sem þeir drepa niður fæti. Þeir skilja ekki eðli verðmætasköpunar, þeir kunna bara að sólunda.

Baldur Hermannsson, 3.6.2010 kl. 12:53

6 Smámynd: Baldur Hermannsson

Rauða ljón, þrátt fyrir bókhaldsbrellur blasir við að Samfylkingin hefur svo gott sem jafnað Hafnarfjörð við jörðu.

Baldur Hermannsson, 3.6.2010 kl. 12:54

7 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Baldur, það má líka ekki gleyma, hvaða flokki, Álftnesingar treystu, til forystu í því að leiða flokkinn útúr mestu vandræðum, sem nokkurt sveitarfélag á Íslandi hefur komist í ?

Kristinn Karl Brynjarsson, 3.6.2010 kl. 13:03

8 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Úps!!!! "Flokkinn" átti að sjálfsögðu að vera "Sveitarfélagið".  Biðst forláts.

Kristinn Karl Brynjarsson, 3.6.2010 kl. 13:13

9 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Í ljósi þess, hversu útkomur skoðanakannana, í undanfara kosninga, höggva oft nærri endanlegum kosningaúrslitum, má alveg segja að samanburður á þeim og kosningaúrslitum, sé að flestu leyti marktækari, en samanburður á fjögurra ára gömlum kosningaúrslitum.

 Skoðanakannanir eru orðnar fullgildur "mælikvarði" á stöðu flokkana á þeim tíma sem að þær eru gerðar. Ætti því ´ljósi þess að meta kosningaúrslit, frá útkomu skoðanakannanna, segjum hálft ár aftur í tímann, í stað fjögurra ára gamalla kosningaúrslita.   Enda hlýtur hver sá flokkur sem leggur af stað í kosningabaráttu að horfa frekar til nýlegra skoðannakannanna, heldur en tæplega fjögurra ára gamalla kosningaúrstlita.  Sé það gert, þá kollvarpar það kenningu fræði og fréttamanna um um "afhroð fjórflokksins", í Reykjavík.

Í þessu eilífa tali um "tap fjórflokksins" má alveg geta þess, að skömmu fyrir innkomu Besta Flokksins í baráttuna, þá gátu samkvæmt skoðanakönnunum, Samfylking og VG myndað hreinan meirihluta í Reykjavík.  Var sá meirihluti ýmist 8 eða 9 manna, eftir því hvort Samfylkingu væru ætlaðir 6 menn í borgarstjórn eða 5, en VG var ávallt spáð 3 fmönnum. Í þeiim könnunum sem sýndu 9 manna meirihluta, var Sjálfstæðisflokknum ætlaðir 5 menn og Framsókn 1, en í 8 manna meirihlutanum, var Sjálfstæðisflokknum spáð 6 mönnum, en Framsókn 1.

 Innkoma Besta flokksins olli því semsagt, sé stuðst við þessar kannanir, þurrkaði út Framsókn, tók 2 af VG, 2-3 af Samfylkingu, en 0-1 af Sjálfstæðisflokknum og vantaði Sjálfstæðisflokkinn aðeins u.þ.b. 1000 atkvæði í kosningunum til að ná inn sjötta manninum.

 Þegar Besti flokkurinn mældist sem hæstur í könnunum, þá bitnaði það oftast á Sjálfstæðisfllokknum, en VG og Samfylking voru með svipað fylgi og þeir fengu að lokum í kosningunum.  Í átta manna meirihluta, þá var Samfylking með 3  Vg 1 og Sjálfstæðisflokkur 3 svo dæmi sé tekið.

 Fólki er svo auðvitað í sjálfsvald sett, hvort það kjósi að kalla útkomu þessara kosninga, sem afhroð "fjórflokksins", en sé litið til þessara kannanna, þá sést að það voru fyrst og fremst vinstri flokkarnir og Framsókn, sem biðu afhroð, en Sjálfstæðisflokkurinn, hélt sjó.

Kristinn Karl Brynjarsson, 3.6.2010 kl. 15:20

10 Smámynd: Björn Birgisson

Ég skil nú ekki alveg hvernig þú nenntir að skrifa þennan pistil. Það liggur svo algjörlega í augum uppi að nánast má setja samasem merki á milli Sjálfstæðisflokksins, auðlegðar og hagsældar, kannski ekki allra, en alla vega sumra. Þáttur flokksins í hruninu og aðdraganda þess var nú bara eins og hver önnur óheppni og er áreiðanlega að mestu einhverjum útlendingum að kenna. Að breyta vel bjargálna þjóð í stóran hóp bónbjargarmanna flokkast líka undir einstaka óheppni. Allir vita að allt sem Sjálfstæðisflokkurinn snertir, hvort heldur er í Hafnarfirði eða annars staðar, verður samstundis að skíra gulli. Þarf nokkuð að ræða það?

Björn Birgisson, 3.6.2010 kl. 17:42

11 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Nú verð ég enn einu sinni að taka upp hanskann fyrir Baldur. Ég er yfirleitt bæði sammála þér og honum, Björn. (Blað skilur bakka og egg o.s.frv.) En að halda því fram að Baldur sé latur er ekki sanngjarnt. Mér skilst að þið eltið báðir golfkúlur um allar trissur ef ykkur tekst að hitta þær með prikunum sem þið notið við þá iðju að slá þær og er það að mínu viti ekki nema á færi duglegustu manna að gera slíkt. Skynsemina læt ég liggja á milli hluta. Í Hafnarfirði náði Rósa Guðbjartsdóttir góðum árangri þótt Baldur sé ekki sérstakur aðdáandi hennar og myndi ég flytja í Hafnarfjörð strax á morgun ef ég væri ekki veðurtepptur hér í því gjörningaveðri sem Besti flokkurinn hefur magnað upp.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 3.6.2010 kl. 18:37

12 Smámynd: Björn Birgisson

Ben.Ax., þú ritar: "En að halda því fram að Baldur sé latur er ekki sanngjarnt." Ekki gerði ég það. Þvert á móti dáðist ég að elju hans, að nenna að skrifa um það sem allir vita. Lærðar færslur um að himininn sé blár á stundum eru ekkert innlegg í umræðuna. Það vita allir, meira að segja blindir frá fæðingu. Ekki er ég þar með að segja að Baldur sé blindur. Ég veit að hann á gleraugu, en horfir aldrei í gegn um þau - í sparnaðarskyni, að hætti Hafnfirðinga.  

Björn Birgisson, 3.6.2010 kl. 19:51

13 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Björn, nú verð ég að taka undir allt sem þú segir en þú ert það gamall að þú ættir að muna eftir því að þegar þínir menn í pólitíkinni héldu því fram að til að kýrnar í sveitum landsins yrðu ánægðar þyrfti bara að setja á þær græn gleraugu og beita þeim síðan á sinuna. Þetta átti að bæta allra hag. Það gerði það því miður ekki. Um gleraugu Baldurs veit ég minna en ekki neitt en reikna með því að þau séu blá á litinn.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 3.6.2010 kl. 20:06

14 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Blessaður Baldur

Bloggpistil með þessari fyrirsögn kallar á lestur, snilldar fyrirsögn. "Skapar auðsæld" já vissulega - fyrir suma, fáa, já verulega fáa - fyrir aðra skuldaklafa og vesæld í áratugi. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis tekur af allan vafa um hvert stefna flokksins sem klædd er í fögur orð og fagra frasa leiðir. Mig tekur verulega sárt hve margt gott og heiðarlegt fólk lætur blekkjast af fagurgala fárra í flokkseigendafélagi flokksins sem meina ekkert með því sem þeir segja. Sama á reyndar við um hina flokkana. Best að taka það fram.

En til að gleðja ykkur sjálfstæðismenn þá er ég það hægri sinnaður í golfi að sjálfur Davíð Odds og Hannes Hó myndu rifna út stolti ef svo ólíklega vildi að þeir sæu til manns.

Golfkveðjur að norðan.

Arinbjörn Kúld, 3.6.2010 kl. 20:16

15 Smámynd: Björn Birgisson

"............. að setja á þær græn gleraugu og beita þeim síðan á sinuna." Er þetta ekki bara snilld? Sá sem kemur með svona frábæra lausn er sjálfkjörinn forstjóri Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna og hungrið hverfur eins og dögg fyrir sólu. Setjum fólk með lausnir í öndvegi.

Björn Birgisson, 3.6.2010 kl. 20:19

16 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Sammála, Björn. En nú sakna ég Baldurs sem hóf þessa umræðu með snilldar ræðu um örvhenta græna en trúlega er hann að sparka golfbolta upp úr glompu einhvers staðar í óbyggðum.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 3.6.2010 kl. 20:49

17 Smámynd: Baldur Hermannsson

Hehe það þykir nú lítil fremd að missa golfboltann til hægri í höggunum, slæs er það kallað manna á meðal, slice á ensku, en vér félagar köllum slík högg tussusnúða og hæðum ákaft þann mann sem þannig slær.

Golfið er sem sagt, öndvert við veruleikann, slæmt til hægri.

Baldur Hermannsson, 3.6.2010 kl. 23:43

18 Smámynd: Björn Birgisson

Ertu sem sagt kominn til mannheima? Mikið verður Ben.Ax feginn og kannski einhverjir aðrir líka!

Björn Birgisson, 3.6.2010 kl. 23:51

19 identicon

Ég sé skapaða auðsældina svona: Síminn, Eimskip, Landsbankinn, Glitnir, Samvinnubankinn, flestir sparisjóðir, fiskikvótar landsmanna , orkulindir landsmanna . Allt selt til klíkuvina sjálfstæðisflokksins, á lánum sem aldrei hafa verið greidd, og verða aldrei greidd.  Allt sem talið er upp hér og meira til er gjaldþrota og meira til, eftir svokallaða eigendur.  Öll þessi fyrirtæki gengu vel þegar þjófagerið gramsaði þau með flokkinn og hirðina sem aðal arkitekta að sköpun auðsældar fyrir sig og sína   árangur = allt tapað og himinháar skuldir ógreiddar árangur = þjóðargjaldþrt.

Eftir stendur venjulegt fólk í landinu, sem kom hvergi nærri hundalógík hirðarinnar, en má nú sjá á  eftir aleigu sinni ásamt því að verða pínd til að borga skuldir hirðarinnar næstu tugi ára.    Ég sá í gegnum þessa bjána fyrir mörgum árum, ágætur bankastjóri sem ég þekki varaði mig við þróuninni, þetta væri galið og myndi enda með skelfingu, hvað sjáum við í dag. ég passaði mig á að koma hvergi nærri vitleysingunum. En ég vorkenni landsmönnum innilega.  Sjálfur treysti ég engum hér, og mun aldrei gera.

Robert (IP-tala skráð) 4.6.2010 kl. 01:46

20 Smámynd: Árni Gunnarsson

Aldrei mun Ísland bera sitt barr fyrr en við framsóknarmenn náum vopnum okkar á ný.

Þar sé ég helstan leiðtoga Þórólf Gíslason ásamt Finni Ingólfs og Ólafi á Miðhrauni fyrir vestan. Og illa er ég svikinn ef hún Valgerður mín á henni þarna Lómatjörn tekst ekki að píska í svosem nokkrar lummur til hátíðabrigða þegar við tökum við búsforráðum og girðum okkur í brók.

Og hver veit nema að í gömlum gámum Sambandsins finnist rúsínupoki og sultukrukka frá KEA.

Árni Gunnarsson, 4.6.2010 kl. 22:42

21 identicon

Hér eru einhverjar skemmtilegustu umræður sem finnast í blokkheimum. Hafið þökk fyrir.

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.6.2010 kl. 19:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Baldur Hermannsson

Höfundur

Baldur Hermannsson
Baldur Hermannsson

Meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér. (Ibsen, lauslega snarað)

 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 340344

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband